Nokkur góð ráð til að sofa betur

Svefninn skiptir alla miklu máli, en hann er langt frá því að vera sjálfgefinn, ekki síst á björtum sumarnóttum eins og Íslendingar þekkja nú um stundir. Þá er vel til fundið að kynna sér nokkur góð ráð til að soifa betur.

Á vef landlæknisem,bættisins segirr að svefnþörf sé afar einstaklingsbundin en til séu ákveðin viðmið tengd aldri. Ung- og smábörn eigi að sofa 12 til18 tíma; forskólabörn 10 til12 tíma; skólabörn um 10 tíma; ungmenni 8 til10 tíma; fullorðnir 6 til8 tíma. Lengd svefnsins skipti samt sem áður ekki öllu máli heldur gæði hans. Ef sofið er of mikið getur það frekar leitt til lélegs og truflaðs svefns heldur en ef svefninn er stuttur, órofinn og góður.

Syfja að degi er merki um ófullnægjandi svefn hver svo sem orsökin er. Ástæður svefntruflana geta verið áhyggjur, verkir, sjúkdómar, vímuefnaneysla eða aukaverkanir lyfja. Óreglulegur svefntími vegna vaktavinnu eða breytinga á lífsmunstri svo sem barneigna getur líka truflað svefn.

Svefnleysi og of lítill eða óreglulegur svefn hafa slæm áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Einstaklingur sem hefur ekki fengið fullnægjandi svefn hugsar ekki skýrt, hefur seinkað viðbragð og getur hreinlega sofnað undir stýri. Syfjaður bílstjóri getur verið sjálfum sér og öðrum hættulegur í umferðinni.

Og hér koma þá góð ráð til að sofa vel og hvílast: 

  • Reglulegur fótaferðatími styrkir líkamsklukkuna og leiðir að lokum til reglulegs svefntíma.
  • Dagleg reglubundin hreyfing leiðir til dýpri og/eða betri svefns en óregluleg líkamsrækt rétt fyrir svefn getur gert ógagn.
  • Hungur truflar svefn og sama gildir um að vera of saddur. Lítill náttverður nokkru fyrir svefn getur hjálpað sumum.

  • Forðast á örvandi drykki að kveldi, sérstaklega með koffeini s.s. kaffi, te, kóla- og suma orkudrykki.

  • Áfengi getur hjálpað spenntum manni að sofna en það truflar svefninn og sama gildir um tóbak.

  • Tryggja þarf ró í umhverfi og huga áður en lagst er til svefns. Forðast að taka áhyggjurnar með í rúmið.

  • Dempuð lýsing nokkrum klukkustundum fyrir svefn virkar vel. Heitur drykkur svo sem flóuð mjólk eða heitt bað getur auðveldað fólki að sofna.
  • Gott rúm bætir svefninn og í svefnherberginu ætti að vera hæfilegur hiti, myrkur og kyrrð.
  • Ekki liggja andvaka í rúminu, farðu fram í smástund og gerðu eitthvað allt annað og reyndu svo aftur að sofna.
  • Ef maður hefur ekki fengið nægan svefn getur stuttur lúr að degi til (um 20 mínútur) hjálpað mikið.
  • Svefnlyf geta hjálpað í stuttan tíma en notkun þeirra til lengri tíma er árangurslaus og jafnvel skaðleg.

Þessar upplýsingar voru fyrst birtar sem Hollráð á vef Landlæknisembættisins.