Nokkrar ekki-fréttir um davíð

Reynt var að búa til einhverja spennu vegna viðtals sem birtist við Davíð Oddsson í innanhússútvarpi Árvakurs á sunnudag. Mbl.isbirti fréttir um fyrirhugað viðtal eins og um stórviðburð væri að ræða. 

Svo fór viðtalið fram. Mbl.is birti í kjölfarið nokkrar frásagnir af þessu viðtali sem reyndust allar vera innantómar ekki- fréttir.

Þeir sem héldu að gamli formaðurinn ætlaði að segja eitthvað til að hjálpa Sjálfstæðisflokknum urðu fyrir vonbrigðum. Hann sagði ekkert flokknum til gagns. En vonaðist til að Framsókn og Miðflokkur næðu að sameinast því Sigmundur Davíð væri svo góður strákur!

Þeir sem héldu að gamli borgarstjórinn  ætlaði að segja eitthvað til að hjálpa Eyþóri vini sínum í framboðsbaslinu urðu einnig fyrir vonbrigðum. Það kom ekkert til hjálpar. Hvernig er svo sem hægt að ætlast til þess að maður sem fékk sjálfur 13% fyrir tveimur árum geti hjálpað öðrum?

Þeir sem héldu að spyrillinn Páll Magnússon þyrði að spyrja áleitinna spurninga urðu jafnframt fyrir vonbrigðum. Nú var ekkert minnst á “heiftarþrugl” Davíðs eins og árið 2012. Nú gilti hjá Páli að sleikja skósóla hinna útvöldu.

Þeir sem héldu að Davíð væri nú loks tilbúinn með nothæfar eftiráskýringar vegna Hrunsins, sem hann ýtti af stað, urðu einnig fyrir vonbrigðum. Skýringarnar eru ennþá ófundnar.

En Davíð lét þess þó getið að hann ætlaði ekki að hætta á Mogganum nærri strax.

Ætli flestum landsmönnum sé ekki sléttsama um það.

Rtá.