Um síðastliðna helgi birtist yfirlýsing frá yfirvöldum þar sem sagði: „Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, spilasölum, spilakössum og söfnum skal lokað meðan á þessum takmörkunum stendur.“
Í viðbrögðum frá formanni Samtaka áhugafólks um spilafíkn, Ölmu Hafsteinsdóttur, sagði m.a.:
„Það besta við þetta er að næstu mánaðamót munu allir kassar vera lokaðir sem mun gera gæfumun fyrir ótal spilafíkla og fjölskyldur þeirra.“
Ég hef sem aðrir landsmenn fylgst með aðdáunarverðri baráttu þessara samtaka gagnvart ótrúlegu sinnuleysi yfirvalda
En nú er þetta semsé komið í höfn, að spilakössum verður lokað tímabundið vegna smithættu og ástæða til að gleðjast yfir því. En þarf ekki að íhuga orð Ölmu Hafsteinsdóttur um þann „gæfumun“ sem þetta hefur í för með sér fyrir „ótal spilafíkla og fjölskyldur þeirra“?
Í tilefni af þessum ummælum þarf að spyrja hvort sá gæfumunur eigi að ráðast af kórónaveirunni einni?
Á sá gæfumunur ekki að taka til allra tíma? Hvers vegna yfirleitt að opna spilavítin á ný?
Er það ekki verðugt umhugsunarefni fyrir dómsmálaráðherrann, sem enn hefur ekki svarað opnu bréfi fyrrnefndra samtaka um rekstur spilakassa og spilavíta?
Er það ekki verðugt umhugsunarefni fyrir Háskóla Íslands sem hagnast um á annan milljarð á ári á kostnað spilafíkla? Er það ekki verðugt umhugsunarefni fyrir Rauða kross Íslands, Slysavarnafélagið Landsbjörg og SÁÁ sem í sameiningu hagnast árlega um tæpan milljarð á kostnað spilafíkla?
Er það ekki verðugt umhugsunarefni fyrir fjárlaganefnd sem horfir á eftir tæpum sjö hundruð milljónum í gjaldeyri til erlendra aðila fyrir kaup og leigu á kössum?
Öll mættum við síðan leiða hugann að því að milliliðir taka til sín átta hundruð og fimmtíu milljónir upp úr vösum spilafíkla. Þetta nefni ég til að minna á hve upphæðirnar, þegar saman koma, eru gríðarlega háar enda gera þær á endanum „gæfumun“ í lífi margra. Annars vegar í lífi þeirra sem borga og svo einnig hinna sem fá borgað. Það skýrir margt og er kjarni vandans.
En er það ekki verðugt umhugsunarefni fyrir okkur öll, sem erum óðum að uppgötva mikilvægi samábyrgðar, hvort við viljum leyfa gróðaöflum að leika veikt fólk eins grátt og spilarekendurnir gera - á ábyrgð og í umboði okkar allra? Er ekki ráð að hugleiða alvöruþrungin orð formanns Samtaka áhugafólks um spilafíkn?
Höfundur er fyrrverandi ráðherra.
Birtist fyrst í Fréttablaðinu