Hroll setur að skattgreiðendur þegar Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra kynnir að undirritað hafi verið samkomulag um endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar á Íslandi.
Ástæða ónotanna er augljós: Í hvert skipti sem ríkisvaldið semur við bændur leiðir það til aukinna útgjalda fyrir ríkið. Skattgreiðendur þurfa ávalt að taka meira á sig vegna slíkra samninga og stundum einnig neytendur. Bændur eru sterkur þrýstihópur sem gengur aldrei til samninga við hið opinbera til annars en að fá meira í sinn hlut. Einkum frá ríkinu í formi meiri niðurgreiðslna og styrkja og einnig frá neytendum í gegnum verðlagningarfyrirkomulag á vegum verðlagsnefndar búvöru.
Landbúnaðarforystan virðist hafa betri aðgang að stjórnvöldum en nokkur annar þrýstihópur í þjóðfélaginu. Stafar það ekki síst af ójöfnu vægi atkvæða milli þéttbýlis og dreifbýlis. Vægi atkvæða í landbúnaðarhéruðum er gjarnan tvöfalt á við vægi atkvæða á höfuðborgarsvæðinu þar sem 70% kjósenda búa. Dreifbýlisþingmenn ganga erinda landbúnaðarins í gegnum alla framsóknarflokkana sem eru á höttum eftir dýru atkvæðunum úti á landi. Framsóknarmenn ráða ríkjum í gamla Framsóknarflokknum - að sjálfsögðu – og einnig í Miðflokknum, Sjálfstæðisflokknum og í dreifbýlisarmi Vinstri grænna. Það er því ekki við öðru að búast en að hagsmunagæslumönnum bænda og afurðastöðva veitist auðvelt að vinna hagsmunamálum sínum brautargengi. Niðurstaða allra samninga milli þeirra og ríkssjóðs leiðir alltaf til aukinnar ríkisaðstoðar á kostnað skattgreiðenda.
Í hvert skipti sem rætt er um búvörusamninga og ríkisstyrki til landbúnaðar vaknar sú spurning hvort landbúnaður sé atvinnugrein eða lífsstíll. Tugir milljarða renna á hverju ári til þessarar „atvinnugreinar“ á meðan aðrar helstu atvinnugreinar þjóðarinnar skila miklum sköttum í sameiginlega sjóði. Ríkið styrkir ekki sjávarútveg, iðnað, verslun, þjónustu eða ferðamannaiðnað sem er orðinn helsta atvinnugrein þjóðarinnar og eina útflutningsatvinnugreinin sem skilar virðisaukaskatti í ríkissjóð. En hvers vegna þarf annað að gilda um landbúnað?
Það er kominn tími til að svara því hvort landbúnaður geti talist atvinnugrein eða áhugamál þeirra sem stunda þessa starfsemi.