“Fylgishrun” er orðið sem Styrmir Gunnarsson notar um útkomu Sjálfstæðsiflokksins í Reykjavík á síðustu árum og allt frá árinu 1994. Hann fjallar um veika stöðu flokksins í Reykjavík í blaðagrein nú um helgina.
Hann minnir á að flokkurinn hafi áratugum saman verið með um og yfir helming fylgis í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík en hafi einungis náð 25,7% í kosningunum 2014 sem er versta útreið flokksins frá upphafi. Þá bendir hann á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi aðeins fengið innan við 23% í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur í Alþingiskosningum sl. haust. Flokkurinn missti þá einn þingmann í Reykjavík og fékk samtals fimm menn kjörna í höfuðborginni.
Styrmir kallar eftir málefnalegri umræðu innan flokksins og stefnumörkun sem honum þykir að lítið hafi farið fyrir. Það er alveg óhætt að taka undir þessi sjónarmið Styrmis. Flokkurinn í heild er málefnalega stefnulaus og hugsar einungis um völd. Flokkurinn lítur á það sem meginhlutverk sitt að gæta sérhagsmuna í sjávarútvegi og landbúnaði á kostnað neytenda og skattgreiðenda. Þá hefur hann sífellt hneygst meira og meira til einangrunarstefnu og hræðslu gagnvart útlöndum og útlendingum. Frjálslynt fólk hefur flúið flokkinn í vaxandi mæli. Þeirri framvindu er hvergi nærri lokið að óbreyttu.
Vandi Sjálfstæðisflokksins snýst ekki bara um skort á málefnalegri stefnumörkun eins og Styrmir gerir að umtalsefni og telur að valdi fylgishruni hans í höfuðborginni.
Vandi Sjálfstæðisflokksins snýst ekki síður um fólk. Fíllinn í herberginu er forysta flokksins, bæði núverandi forysta og fyrrverandi forysta sem fæst ekki til að hætta.
Það hefur ítrekað komið fram, bæði í umfjöllun fjölmiðla og eins í bókinni Hinir ósnertanlegu, sem kom út fyrir síðustu jól, að Bjarni Benediktsson formaður er spilltur stjórnmálamaður sem hefur því miður brogaða fortíð að baki í vafasömum viðskiptum. Þá er það hneyksli að flokkurinn skuli enn tefla fram Sigríði Andersen sem dómsmálaráðherra eftir að hún hefur verið dæmd sek í Hæstarétti Íslands fyrir að brjóta lög við skipan dómara. Ráðherra dómsstóla braut lög um dómstóla að mati Hæstaréttar en situr samt áfram. Óhætt er að fullyrða að þetta myndi ekki líðast í neinu af ríkjum Vestur-Evrópu – nema þá hér. Það er Íslendingum ekki til framdráttar.
Sjálfstæðismönnum líður illa út af þessu ástandi og æ færri kjósendur eru tilbúnir til að taka þátt í meðvirkni með flokknum út af spilltum forystumönnum.
Þá er það einnig ljóst að öfgafulltur málflutningur fyrrverandi forystumanna flokksins spillir fyrir honum. Nátttröllin fara mikinn í þjóðfélagsumræðunni og færast æ lengra út á kantinn miðað við það sem fólk sættir sig almennt við. Með vissu millibili breytist fólk í kjósendur og það er vont fyrir Sjálfstæðisflokkinn nú um stundir. Nátttröllin eru stundum nefnd “Svartstakkar” og það er jafnvel fjallað um þau sem “náhirð”. Hópurinn er ekki stór en hann er þekktur og áberandi.
Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki vænst bættrar stöðu fyrr hann losnar úr klóm nátttröllana og hreinsar jafnframt til í forystusveit sinni og útrýmir spillingu þar. Svo einfalt er það.
Víkjum aftur að vali flokksins á leiðtoga vegna borgarstjórnarkosninga næsta vor. Um það segir Styrmir: “Það verður tæpast sagt að mikil ásókn hafi verið í framboð í því leiðtogaprófkjöri, sem fram undan er.” Það er ekki ofsagt því reynt var að fá fjölda flokksmanna til leiks án árangurs. Sumum datt meira að segja í hug að fela Framsóknarmanni forystuhlutverkið, slík var örvæntingin!
Meðal þeirra sem leitað var til og sögðu nei: Borgar Þór Einarsson, Svanhildur Hólm Valsdóttir, Ásdís Halla Bragadóttir, Jón Karl Ólafsson, Björn Jón Bragason, Unnur Brá Konráðsdóttir, Aldis Hafsteinsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Vala Pálsdóttir, Ólafur Arnarson, Halla Tómasdóttir og Frosti Sigurjónsson fyrrum þingmaður Framsóknar. Að auki könnuðu nokkrir mögulegar undirtektir en fundu engar. Það á við um Illuga Gunnarsson, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Sirrý Hallgrímsdóttur.
Rétt hjá Styrmi: “Ekki mikil ásókn”.
Rtá.