Neyðarkall frá skólastjórnendum hunsað

Skýrsla innri endurskoðanda um úthlutun fjárhagsramma og rekstur grunnskóla Reykjavíkur kom út í júlí. Í Reykjavík eru 34 almennir grunnskólar og 6 sem eru sjálfstætt reknir. Í skýrslunni er m.a. farið yfir vinnslu og úthlutun fjárhagsramma innan Skóla- og frístundarsviðs (SFS). Viðhaldsmál skólanna eru jafnframt til umfjöllunar. Í skýrslunni eru settar fram 24 ábendingar. Þótt deila megi um hvort skýrslan sé svört er alveg víst að lýsingar á ástandinu eru ekki fagrar og úr mörgu brýnu þarf að bæta.

Einn stærsti veikleikinn sem er nefndur snýr að útdeilingu fjármagns til skólanna. Hvergi í þessu ferli hafa skólastjórnendur aðkomu og ekki er leitað til þeirra um innlegg í umræðu hvorki um skuldbindingar, forgangsröðun né áherslur. Skólastjórnendur geta hins vegar sent inn óskalista um viðbótarfjármagn. Það fé sem kemur í hlut einstakra skóla ræðst síðan af því hvað Skóla- og frístundarsviðið fær mikið fjármagn hjá fjárveitingarvaldi borgarinnar. Fjárveitingarvaldið ákvarðar rammann sem í mörg ár hefur verið allt of þröngur þrátt fyrir aukin framlög. Ramminn er reiknaður í líkani sem m.a. tekur mið af fjölda nemenda en takmarkað tillit er tekið til sérstöðu skóla. Líkaninu er lýst sem margplástruðu excel-grunnskjali sem er úrelt í þokkabót.

Í mörg ár hefur Skóla- og frístundarsviðinu verið naumt skammtað og getur því ekki deilt nauðsynlegu fé til skólanna. Skólarnir eru því sífellt að fara fram úr áætlun og til að mæta fjárskorti er klipið af nemendatengdum stöðugildum. Skólarnir hafa einnig þurft að gera ráð fyrir mun minni yfirvinnu en er í raun, skera niður sérkennslu og stuðning við börnin svo fátt eitt sé nefnt.

Ákall eftir sérfræðingum inn í skólana

Lykilstjórnendur hafa ítrekað kallað eftir aðstoð sérfræðinga eins og sálfræðinga og vilja fá þá inn í skólana. Þetta kemur skýrt fram í skýrslu innri endurskoðunar. Flokkur fólksins hefur barist fyrir auknu aðgengi barna að skólasálfræðingum og hefur flokkurinn lagt fram tillögu um að sálfræðingar hafi aðsetur í skólunum en ekki á þjónustumiðstöðvum. Þannig geta þeir best sinnt sínu fjölbreytta hlutverki. Auk þjónustu við börnin og foreldra er mikilvægt að skólasálfræðingar starfi þétt við hlið kennara, námsráðgjafa og skólahjúkrunarfræðinga. Flokkur fólksins hefur einnig lagt fram tillögu um að börn hafi almennt biðlistalaust aðgengi að skólasálfræðingum, talmeinafræðingum og öðrum fagaðilum í störfum hjá borginni. Báðar þessar tillögur voru felldar í Skóla- og frístundarráði.

Starfsfólki Skóla- og frístundarsviðs vorkunn

Sviðsstjóra og starfsfólki sviðsins er í sjálfu sér vorkunn. Á sama tíma og borgarstjóri segist vilja hlúa að starfsfólki sínu er starfsfólk sviða sett milli tveggja elda, fjárveitingavaldsins annars vegar sem er með fótinn á bremsunni og neyðarkalls skólastjórnenda eftir viðbótarfjármagni hins vegar. Skólasviðið heyrir undir Skóla- og frístundaráð. Það hlýtur að vera verkefni formanns Skóla- og frístundaráðs að glíma við fjárveitingarvaldið, að berjast fyrir sínu sviði til að tryggja að hægt sé að fylgja ákvæðum grunnskólalaga. Það er í höndum fjármálavaldsins og meirihlutans eftir atvikum, eins og það er orðað í skýrslunni, að ákveða hvort skólar fái eitthvað af óskum sínum um viðbótarfjármagn uppfylltar.

Myglaðar skólabyggingar og viðhaldi ekki sinnt

Í skýrslunni er fjallað um viðhaldleysi skólabygginga. Bókfærð innri leiga nemur 8.5% af stofnverði fasteignar og þar af er 1.5% eyrnamerkt til að sinna viðhaldi. Viðhaldi hefur hins vegar ekki verið sinnt sem skyldi og safnast hefur upp „innheimt óunnið viðhald“. Skrifstofa eigna- og atvinnuþróunar hefur tekjufært þessa upphæð án þess að viðhaldi væri sinnt.

En nú er sagt að eigi að gera betur. Ákveðið hefur verið að bæta 300 m.kr. í viðhald sem verður þá alls 1 m.kr. úr að spila. Þessi viðbót getur varla dugað langt þar sem skólahúsnæði borgarinnar hefur ekki verið haldið við að heitið geti í hartnær 10 ár. Skiljanlega þurfti að skera niður í kjölfar hruns en samdrátturinn hefur bæði verið mikill og langvinnur. Börn hafa í mörg ár stundað nám í heilsuspillandi skólahúsnæði. Segir í skýrslunni að borgin hefur ekki uppfyllt ákvæði grunnskólalaga sem kveður á um að húsnæði og aðbúnaður skuli taka mið af því að tryggja öryggi og vellíðan nemenda og starfsfólks.

Niðurstöður skýrslunnar eru afgerandi. Stærsti áhættuþátturinn eru veikleikar í innra eftirliti sem geta leitt af sér eina eða fleiri aðrar áhættur s.s. fjárhagstap, brot á lögum, brot á siðareglum og innri reglum, orðsporsáhættu, sviksemisáhættu eins og sagt er orðrétt í skýrslunni. Hér er um sama áhættuþátt að ræða og settur var efstur í skýrslu innri endurskoðanda um Nauthólsveg 100.

Flokkur fólksins í borgarstjórn hefur margrætt að útdeila þurfi fé með aðra forgangsröðun í huga. Stokka þarf upp á nýtt. Fólkið sjálft og grunnþjónustan, börnin og umhverfi þeirra, eiga að verma fyrsta sæti forgangsröðunar. Annars konar verkefni sem ekki hafa að gera með líf og líðan einstaklinga eiga að bíða betri tíma.