Grilluð nautasteik með bernaise steinliggur, hreinlega máltíð sem getur ekki klikkað þegar matgæðingar eru annars vegar. Berglind Hreiðars köku- og matarbloggari sem heldur úti bloggsíðunni Gotterí og gersemar grillaði nautasteik á dögunum og ákvað að prófa nýtt meðlæti og nýja tegund af bernaise sósu með góðri útkomu.
„Maður á það til að festast í að gera alltaf sama meðlætið svo nú ákvað ég að prófa smá nýtt. Ég var til að mynda að prófa nýju Chili Bernaise sósuna frá Toro í fyrsta skipti og hún var alveg dúndurgóð. Súpereinfalt að búa hana til og þessi máltíð var dásamleg.“
Hér er á ferðinni nauta ribeye með chili bernaise sósu, bökuðum kartöflum og ofnbökuðu grænmeti, sem fullkomin samsetning og bragðlaukarnir ljóma.
Girnilegar nautasteikurnar og bráðna í munni./Ljósmyndir Berglind Hreiðars.
Ribeye og Chili Bernaise sósa
Fyrir 2-3
Hráefnalistinn
- Ribeye steikur (2 x 300 g)
- Bökunarkartöflur (ein á mann)
- 1 ½ rauðlaukur
- 200 g gulrætur
- 3 hvítlauksrif (heil)
- 200 g sveppir (kastaníu og hefðbundnir í bland)
- 1 pakki Toro Chili Bernaise sósa (+ smjör og mjólk skv.pakkningu)
- Smjör og olía til steikingar
- Ferskt timían
- Oregano, rósmarín, salt og pipar
Ribeye
- Leyfið kjötinu að standa við stofuhita í að minnsta kosti klukkustund áður en það er grillað.
- Hitið grillið og lokið kjötinu við háan hita, þannig að flottar grillrákir myndist og það brúnist vel á báðum hliðum.
- Færið þá yfir á óbeinan hita og lækkið í grillinu.
- Takið steikurnar af þegar kjarnhiti sýnir um 58°C, nuddið þær með smjöri, saltið og piprið.
- Leyfið þeim síðan að hvíla í að minnsta kosti 10 mínútur áður en þið skerið þær.
Chili Bernaise
- Útbúið sósuna samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
- Hægt er að krydda hana aukalega með salti, pipar og mögulega chili ef þið viljið hana sterkari.
Bökunarkartöflur
- Hitið ofninn í 200°C.
- Pakkið hverri kartöflu inn í álpappír og setjið í ofninn í hátt í 1 ½ klukkustund. Stingið þó með prjóni í þær reglulega og þær eru tilbúnar þegar þær eru mjúkar í gegn.
- Skerið kross í þær og opnið og fyllið með því sem hugurinn girnist, smjör + salt, Chili bernaise eða kaldri dressingu.
Ofnbakað grænmeti
- Hitið ofninn í 190°C.
- Skerið gulrætur í strimla, lauk í sneiðar, flysjið hvítlauksrifin og skerið sveppi í bita.
- Setjið í stóra skál og setjið eins og 4 matskeiðar af ólífuolíu yfir, ½ tsk. oregano, ½ tsk. rósmarín, ½ tsk. gróft salt, ¼ tsk. pipar og nokkrar timían greinar.
- Blandið öllu saman og dreifið síðan úr grænmetinu á ofnskúffu.
- Bakið í um 20 mínútur eða þar til grænmetið er farið að mýkjast.
Vert er að vera búin að leggja fallega á borð og bera sælkerakræsingarnar fram á fagurlegan hátt þegar allt er tilbúið og njóta þess sem augað ber. Verði ykkur að góðu.
*Allt hráefnið fæst í verslunum Bónus.