Lóðaframboð yrði aukið þá þegar og til mikilla muna, kæmist Sjálfstæðisflokkurinn til valda í Reykjavík og þar yrði ekki síst horft til nýbyggingasvæðisins í Úlfarsárdal.
Þetta kemur fram hjá Halldóri Halldórssyni, oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur en hann er gestur fasteignaþáttarins Afsals á Hringbraut i kvöld þar sem jafnframt er rætt um húsnæðis- og skipulagsmál í víðu samhengi.
Halldór segir að þótt hann sé jafnframt hlynntur þéttingu byggðar þá veerði ekki litið framhjá þeirri staðreynd að aukið lóðaframboð í úthvefum sé sá þáttur í þróun fasteignamarkaðarins sem helst og mest hafi áhrif á húsnæðisverð til lækkunar. Það sé því nauðsynlegt að brjóta land til nýbygginga, jafnhliða þéttingu byggðar.
Í þessu ljósi verði einnig að efla almenningssamgöngur til muna svo fólk eigi auðveldara að komast á milli heimilis og vinnu - og þar verði raunar einnig að huga að því að fjölga atvinnulóðum sem víðast um borgina, ekki síst austurhluta hennar, til beina umferðinni á annatíma í sem flestar áttir.
Í þættinum er jafnframt rætt við Guðberg Guðbergsson, fasteignasala á fasteignaasölunni Bæ í Kópavogi og Selfossi um tilbúnar íbúðir í nýjum fjölbýlishúsaklösum, svo og um þau húsráð sem helst duga þegar fólk ætlar að fara að selja húseignir sínar.
Afsal er á dagskrá Hringbrautar klukkan 21:30 í kvöld.