Fumlaus og fagleg viðbrögð Seðlabanka Íslands ættu að hvetja aðra
Ásgeir Jónsson bankastjóri og starfsfólk hans í seðlabankanum sýndu fagleg og virðingarverð vinnubrögð í vikunni þegar stýrivextir voru lækkaðir, bindiskylda viðskiptabanka rýmkuð og tilkynnt um fleiri ráðstafanir til að mæta aðsteðjandi vanda. Bankinn flýtti fyrirhugaðri vaxtaákvörðun um heila viku, einmitt til að leggja áherslu á alvöru málsins og það að Seðlabanki Íslands myndi leggja sitt af mörkum til að auðvelda þjóðinni að fást við vandann.
Um allan hinn vestræna heim eru seðlabankar og ríkisstjórnir að boða markverðar aðgerðir til að bregðast hratt við óvæntum vanda vegna veirunnar sem truflar líf fólks og efnahagsástand ríkjanna. Fagmenn á sviði efnahagsmála vita að miklu varðar að bregðast við af miklu afli þegar í upphafi. Það gerði Ásgeir Jónsson og Seðlabanki Íslands.
Sama verður ekki sagt um ríkisstjórn Íslands. Hún lætur mikilvæga daga líða án þess að tala skýrt um til hvaða aðgerða hún ætli raunverulega að grípa. Það var sorglegt að fylgjast með blaðamannafundi formanna ríkisstjórnarflokkanna á þriðjudaginn var. Fundurinn var illa undirbúin og einkenndist af almennu orðagjálfri stjórnmálamanna í stað þess að tala skýrt og segja hvað stæði til að gera til að minnka þann skaða sem blasir við. Í dag var vandinn ræddur á Alþingi. Svo virðist sem stjórnarandstaðan ætli að sýna ábyrgð og taka þátt í að hraða afgreiðslu mála í þinginu. Það er góðs viti.
Ef ríkisstjórnin kemur ekki fram með afgerandi tillögur strax á morgun, þá er hún ekki þess verð að stýra landinu. Nú er þörf fyrir skjótar og afgerandi skattalækkanir, fjármuni til markaðsátaks í ferðaþjónustu, leiðir til að greiða fyrir aðgengilegum lánveitingum til atvinnulífsins og ákvarðanir um myndarlegar opinberar framkvæmdir sem flýtt verði um eitt til þrjú ár. Það þarf að setja verkefnin í gang núna en ekki bara árin 2021, 2022 eða 2023. Skjótvirkasta skattalækkunin væri að fella tryggingagjaldið niður í þrjá mánuði frá mars til maí 2020 fyrir allt atvinnulífið og lækka það síðan verulega þegar innheimta þess hæfist að þeim tíma liðnum.
Nú þarf ríkisstjórnin að taka sér Seðlabanka Íslands til fyrirmyndar varðandi fagleg og fumlaus vinnubrögð. Nú má engan tíma missa til að koma í veg fyrir enn stærri efnahagsáföll og atvinnuleysi. Nú dugar ekki lengur að skipa nefndir og rýnihópa sem svæfa mál. Nú þarf dug til að ljúka málum og þor til að taka ákvarðanir.