\"Popúlistaflokkar í Evrópu byggja flestir á þjóðrembingi langt til hægri og svo einstökum afmörkuðum yfirboðum til vinstri í þeim tilgangi að ná jaðarfylgi frá sósíaldemókrötum. Framsókn hefur í flestum meginatriðum fylgt þessari formúlu.\"
Þetta skrifar Þorsteinn Pálsson í nýjasta pistli sínum á hringbraut.is, en þar fjallar hann um augljósan og vaxandi pirring í samstarfi stjórnarflokkanna sem reyna nú sýna sérestöðu sína í ræðu og riti, einkum þó Framsóknarflokkurinn sem Þorsteinn segir byrjaðan í brúargerð yfir til flokka stjórnarandsöðunnar. Annars minni ríkisstjórnasamstarfið svolítið á seinni valdaárin hjá síðustu stjórn sem hafi þá fremur setið en stjórnað: \"Sú seta varð Samfylkingunni dýrari en VG. Eins er líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn gjaldi hærra verð fyrir slíka setu en Framsókn haldi þetta áfram,\" skrifar Þorsteinn.
Hann segir ennfremur að þegar Framsókn skerpi sérstöðu sína í stjórnarsamstarfinu hafi það bæði jákvæð og neikvæð áhrif á Sjálfstæðisflokkinn: \"Jákvæða hliðin er sú að það dregur úr smitinu frá popúlismanum. Neikvæða hliðin er aftur á móti sú að það getur þrengt möguleika á annars konar samstarfi. Það ræðst þó nokkuð af því hvaða afstöðu núverandi stjórnarandstöðuflokkar hafa til popúlisma Framsóknar.\"
Í þessu sambandi segir Þorsteinn stjórnarandstöðuflokkana eiga tveggja kosta völ: \"Annar kosturinn er sá að lýsa því yfir að þeir ætli að mynda stjórn saman fái þeir þingmeirihluta. Fjárlagatillögurnar voru vísir að slíkri yfirlýsingu. Þeir gætu gengið skrefi lengra og sagt fyrir kosningar hverjum þeir tefla fram sem forsætisráðherraefni. Með þessu móti yrðu kosningarnar afgerandi val milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Popúlismi Framsóknar yrði þá eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn einn þyrfti að laga sig frekar að eða segja sig frá.
Hinn kosturinn er að halda öllum dyrum opnum. Segja má að það sé íslensk venja. Það þýðir að stjórnarandstaðan útilokar ekki popúlistahugmyndir Framsóknar. Sumar þeirra stangast til að mynda á við grundvallaratriði í stefnu Samfylkingarinnar í utanríkismálum og peningamálum. Tveir Samfylkingarþigmenn hafa þegar flutt þingmál til þess að nálgast popúlisma Framsóknar í peningamálum. Er von á fleiri kúvendingum í því skyni,\" spyr Þorsteinn og minnir á að eftir því sem svör stjórnarandstöðuflokkanna við spurningum af þessu tagi verði loðnari fái Framsókn að sama skapi sterkari stöðu á taflborði stjórnarmyndunar eftir kosningar; jafnvel þótt henni mistækist að bæta stöðu sína frá því sem nú er.