Enn hefur enginn reynt að útskýra það fyrir okkur hvers vegna það eigi að vera málefni ríkisstjórnar og skattgreiðenda að leysa rekstrarvanda sauðfjárbænda sem kunna greinilega ekki að reka atvinnustarfsemi sína og heimta skattpeninga fólksins til að borga hallann af starfsemi sinni.
Ef sauðfjárrækt á að teljast atvinnugrein, þá verður sama að gilda um hana og aðrar atvinnugreinar. Hún verður að kunna fótum sínum forráð og hún verður sjálf að bera ábyrgð á rekstri sínum og ákvörðunum. Það er alveg glórulaust að bændur láti framleiða afurðir úr 600,000 lömbum þegar eftirspurn er eftir afurðum af 400,000 lömbum árið 2017 og krefjist þess svo að ríkissjóður leysi þann vanda sem rangar ákvarðanir þeirra valda.
Það reynir enginn að útskýra það hvers vegna ríkið á að leysa rekstrarvanda sauðfjárbænda eitthvað frekar en rekstrarvada í öðrum atvinnugreinum. Nú vilja eigendur ÍSAL selja fyrirtækið eða jafnvel loka því vegna þess að reksturinn hefur gengið mjög illa í mörg ár. Álverð í heiminum hefur verið óhagstætt og auk þess hefur fyrirtækið trúlega verið illa rekið í langan tíma. Eigendum ÍSAL dettur samt ekki í hug að krefjast þess að fjármálaráðuneytið noti skattpeninga landsmanna til að borga vandann í þessu stóra álfyrirtæki þar sem mörg störf og mikil verðmætasköpun í útflutningi eru í húfi. Eigendurnir takast sjálfir á við sín vandamál eins og er grundvallaratriði í öllum atvinnurekstri. Allt annað er pilsfaldakapítalismi.
Ríkisstjórnin hefur nú látið til leiðast að koma enn á ný með fjármuni til hjálpar bændum. Nú verður 650 milljónum króna varið til aðgerða sem ætlaðar eru til að fækka bændum og draga úr offramleiðslu. Loksins er reynt að taka á vandanum með þeim hætti að fjarlægja meinið. Ekki er einungis verið að gefa sjúklingnum deyfilyf sem dugar í skamman tíma. Reynt er að takast á við sjúkdóminn, offramleiðsluna.
Þessar aðgerðir eru þær viturlegustu sem lengi hafa sést þegar um landbúnaðarvandann er að ræða. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á þakkir skyldar fyrir að reyna þó að koma með vitrænt innlegg í þetta eilífðarvandamál. En skyldu forystumenn bænda kunna að þakka fyrir? Nei, auðvitað ekki. Lítum á dæmi:
Í Bændablaðinu segir formaður Landssamtaka sauðfjárbænda: “Seinagangur ráðherra varð til þess að ekki var tekið á vanda sauðfjárbænda í tíma.” Jæja, er ruglið í sauðfjárræktinni þá ráðherra að kenna? Tók ráðherra ákvarðanir um 50% offramleiðslu lambakjöts í ár? Nei, það gerðu bændur sjálfir en vilja ekki bera ábyrgð á röngum ákvörðunum sínum. Vandanum er vísað til ráðuneytis “fyrir sunnan”. Þessi málflutningur er alls ekki boðlegur og skattgreiðendur þurfa ekki að láta bjóða sér upp á þetta.
Fjölmargt fleira mætti nefna af dæmum um kjánaleg viðbrögð bændaforystunnar sem skilur greinilega ekki eðli atvinnurekstrar. En hér verður látið nægja að vitna í bóndann, dýralækninn og þingmanninn, Sigurð Inga Jóhannsson formann Framsóknarflokksins, en samtök bænda starfa nánast eins og deild í þeim flokki. Eða er það öfugt; flokkurinn deild í Bændasamtökunum? Sigurðu Ingi segir að vegna sinnuleysis ríkisstjórnarinnar gagenvart vanda sauðfjárbænda sé hætta á að “tugþúsundir starfa” geti tapast hér á landi.
Ef tengsl Sigurðar Inga við raunveruleikann eru ekki meiri en þetta, og séu þau dæmigerð fyrir bændastéttina, þá er ekki við öðru að búast en að bændur haldi áfram að berja hausnum við steininn í stað þess að reyna að reka starfsemi sína á ábyrgan hátt.
Ef ætlast er til þess að ríkið haldi áfram að bera þessa atvinnugrein á herðum sér, hlýtur sú spurning að vakna hvort ekki sé best að stofna hér fjölda samyrkjubúa í eigu ríkisins að sovéskum sið. Þá þyrfti enginn að bera ábyrgð á offramleiðslu því ríkið ætti þetta hvort sem er og þyrfti að leysa vandann.
Er ekki tími samyrkjubúanna runninn upp á Íslandi?
Rtá