Mynd dagsins: Myndir þú smakka þessa alíslensku köku?

Andri P. Guðmundsson hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum fyrir furðulega eldamennsku, en um þarsíðustu jól fór mynd hans af  laufabrauðstaco eins og eldur um sinu um internetið.

Hann hefur nú snúið aftur með rétt sem fer fyrir brjóstið á sumum, en þar hefur hann blandað saman íslensku veisluhlaðborði í einn rétt, sem hann kallar: All-in-one veisluhlaðborðskaka.

Þar hefur hann blandað saman marengstertu með rjóma, brauðrétt með aspas, rice krispies-köku og síðast en ekki síst súkkulaðiköku. 

Sitt sýnist hverjum um þessa uppskrift Andra, en í ummælum undir færslunni þar sem hann kynnir kökuna sína fær hann bæði hrós og kaldar kveðjur.

„Má bjóða þér sneið af glæpi gegn mannkyni?“ skrifar einn og annar tekur undir: „Þessi kaka er lögreglumál. Hún er á leiðinni.“ Þá eru aðrir talsvert jákvæðari, en sumir kalla eftir meiri brauðtertu.

Hvað finnst þér - myndir þú vilja smakka þessa tertu?