Nú, Þegar samfélagið gengur á andköfum og innsoginu af hneykslun yfir ásökunum um mútugreiðslur íslenskra útrásarvíkinga í Namibíu hafa einhverjir orðið til að rifja eitt og annað upp um skreiðarsölu til Nígeríu á árum áður.
Hér verður ekki farið nákvæmlega í saumana á skreiðarviðskiptum, sem menn almennt viðurkenndu t.d. á áttunda og níunda áratugnum að þyrftu „fyrirgreiðslufé“ til að af þeim gæti orðið.
Nei, hér verður staldrað við nokkuð sérstaka frásögn á fundi, einskonar neyðarfundi, sem skreiðarframleiðendur blésu til í byrjun októbermánaðar 1983.
Einn ræðumanna var Björgvin heitinn Jónsson framkvæmdastjóri Glettings í Þorlákshöfn. Lýsingar hans á ástandi skreiðarframleiðslunnar voru ekki fagrar og myndin sem hann dró upp var kolsvört. Hann var að biðla til stjórnvalda um aðstoð, þarna voru jú staddir bæði sjávarútvegsráðherrann og viðskiptaráðherrann.
Birgðir hlóðust upp, seldust ekki og það sem hafði verið afgreitt fékkst ekki borgað, gjaldþrot blasti við með tilheyrandi fjöldaatvinnuleysi. Og, það var aðeins hluti vandans sem skreiðarframleiðslan átti við að etja, sennilega það sem auðveldara væri að leysa.
Morgunblaðið birti í heild ræðu Björgvins á fundinum þann 12. Október 1983 á blaðsíðu 36. Í lok ræðunnar víkur Björgvin að hinu vandamálinu og segir: „Þriðja höfuðvandamál skreiðarinnar er sérstaða norskra skreiðarverkenda á Nígeríumarkaðnum. Norðmenn eru okkar einu keppinautar þar. Norska ríkisstjórnin er nú búin að láta norska ríkið axla að fullu vanda norskra framleiðenda. Það er gert með olíugróða. Við höfum enga slíka lind að ausa úr.
Úr þessum sömu sjóðum er Nígeríumönnum nú veittur ómældur afsláttur. 20% var staðreynd til skamms tíma. Nú er talað um verulega hærri upphæðir.
Norskir framleiðendur þurfa ekki að greiða þennan afslátt.“
Það var nefnilega það!
20% afsláttur og hærri en það, fjármagnaður af norskum olíupeningum! Hvar lágu leiðir þessara olíupeninga sem um síðir fóru um einhverjar nígerískar hendur? Hvar endaði féð?
Hér er ekki spurt í neinni von um að finna réttu svörin, heldur til að benda á athæfið, hvernig norska ríkið fann verulega mikið „fyrirgreiðslufé“ og leið fyrir það inn á Nígeríumarkaðinn. Í því ljósi er einkar athyglisvert að fylgjast með fregnum af hneykslan einhverra Norðmanna nú yfir framferði íslenskra bíssnisskalla í Namibíu.