Munu sægreifar reyna yfirtöku á Stöð 2, Bylgjunni og Vísi?

Grunur leikur á að sægreifar ásamt viðskiptafélögum sínum og velunnurum hafi áform um að ná undir sig fjölmiðlafyrirtækinu Sýn sem meðal annars á og rekur Stöð 2, Bylgjuna og Vísi.is.

Morgunblaðið og tengdir miðlar eru í eigu sægreifa í Vestmannaeyjum og á Sauðárkróki sem styðja Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn. Þetta hefur öllum verið ljóst um árabil. Vitað er að útgefendur Morgunblaðsins hafa lengi haft löngun til að eignast Bylgjuna og Vísi.is en samkeppnisyfirvöld og Fjölmiðlanefnd munu aldrei samþykkja það. Það verður því að skoða aðrar leiðir og hjáleiðir til að ná völdum í Sýn sem er næststærsti fjölmiðill landsins, næst á eftir RÚV, sem er áhrifamesti fjölmiðill landsins styrktur með milljarða ríkisframlögum árlega. Það er staða sem enginn getur keppt við. Ekkert bendir til að breyting verði þar á enda hafa ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafa átt aðild að ekki hreyft við RÚV.

Talið er að Guðbjörg Matthíasdóttir og fjölskylda í Vestmannaeyjum eigi undir ýmsum nöfnum meirihluta í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, og Kaupfélag Skagfirðinga á 20 prósent hlutafjár og einn mann í stjórn félagsins. Vestmanneyingar eru taldir ráða hinum fjórum stjórnarsætunum. Morgunblaðið hefur verið notað grímulaust í hagsmunagæslu fyrir hagsmuni eigendanna, stutt gjafakvótakerfið heilshugar og það fyrirkomulag að veiðileyfagjald væru reiknuð allt of lág árum og áratugum saman og einnig talað fyrir þungu styrkjakerfi í landbúnaði.

Á stjórnmálasviðinu hefur blaðið hamast gegn andstæðingum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar, stutt ríkisstjórnir sem flokkarnir hafa saman átt aðild að, nú síðast vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur, og nú djöflast blaðið á móti ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur. Þá hefur blaðið barist gegn meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur meira og minna síðustu 30 árin, eða frá því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Reykjavíkurlistinn ruddu Sjálfstæðisflokknum nánast út úr forystu borgarinnar.

Á tæpu ári hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsókn með afgerandi stuðningi Morgunblaðsins og peningaafla flokkanna tapað öllum orrustum og stríðum: Síðastliðið sumar duldist engum að þessir flokkar og málgagn þeirra studdu Katrínu Jakobsdóttur eindregið í forsetakjöri. Allir forystumenn flokkanna stóðu með henni, Morgunblaðið fór hamförum gegn mótframbjóðendum hennar og peningaöflin kostuðu langdýrustu kosningabaráttuna. Katrín tapaði samt og Halla Tómasdóttir var kjörin forseti með afgerandi hætti.

Í Alþingiskosningunum þann 30. nóvember sl. fór Morgunblaðið mikinn í stuðningi sínum við Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn og sumir starfsmenn blaðsins fengu óáreittir að sýna andstæðingum þessara flokka beinlínis dónaskap í þáttum og viðtölum. Árvakur beitti öllu afli sínu en allt kom fyrir ekki. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut verstu kosningu í sögu sinni, 19 prósenta fylgi, sem leiddi til þess að bæði formaður og varaformaður flokksins ákváðu að víkja úr embættum sínum og formaðurinn gekk svo langt að kveðja íslensk stjórnmál eftir langa baráttu. Enn verri var útreið Framsóknar sem hlaut fylgi rúmlega sjö prósenta þjóðarinnar og missti átta þingsæti og er nú fimm þingmanna smáflokkur. Meðal þeirra sem féllu af þingi voru þrír ráðherrar. Það er einsdæmi.

En þar með var hörmungargöngu flokkanna og málgagnsins ekki lokið á árinu 2024. Reynt var að trufla stjórnarmyndunarviðræður ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur sem tók við völdum við sólstöður rétt fyrir jólahátíðina. Á þeim rúmlega 100 dögum sem stjórnarsamstarfið hefur staðið yfir hafa árásir á ráðherra og ríkisstjórn verið linnulausar, einkum á Flokk fólksins. Ríkisstjórnin stendur hins vegar vel saman og hefur verið öflug við að koma á framfæri stórum og mikilvægum málum, meðal annars málum sem fyrri ríkisstjórn sat föst með vegna innri ágreinings. Samstaðan er mikil í sitjandi ríkisstjórn sem lætur verkin tala. Ríkisstjórnin nýtur stuðnings þjóðarinnar.

Um mánaðamótin febrúar og mars var svo kjörinn nýr formaður og varaformaður í Sjálfstæðisflokknum. Flokkseigendur, sægreifar og Morgunblaðið tefldu fram Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í formannsframboð en hún er dóttir formanns stjórnar Árvakurs sem gefur út Morgunblaðið. Áslaug var talin sigurstrangleg en beið samt lægri hlut fyrir Guðrúnu Hafsteinsdóttur sem ekki er talin vera hluti af valdaklíkum í flokknum. Enn eitt áfallið! Varaformaður var þó kjörinn Jens Garðar Helgason, þingmaður Samherja að norðan. Hann er nýr á Alþingi og alls óreyndur í landsmálum.

Í ljósi alls þessa eru flokkseigendur og sægreifar sem mestu ráða í Sjálfstæðisflokknum að átta sig á því að Morgunblaðið og undirmiðlar þess duga ekki til að hafa þau áhrif á gang mála í samfélaginu sem þeir kysu. Framangreind dæmi sýna það. Morgunblaðið er komið með óorð á sig fyrir rangt mat á aðstæðum og oft og tíðum dónalega framkomu við menn og málefni. Þeir sem þekkja söguna segja eitthvað á þá leið að það sé af sem áður var þegar afburðamenn eins og Matthías Jóhannessen stýrðu blaðinu af festu, víðsýni og sanngirni. Það er löngu liðin tíð sem fjarlægist sífellt samhliða hnignun Morgunblaðsins. Menn eru að verða úrkula vonar um að úr þessu megi bæta með afgerandi hætti.

Á landsfundum flokkanna hefur um áratugaskeið verið fjasað um það að draga ætti verulega úr mikilvægi RÚV, jafnvel selja stofnunina að hluta eða öllu leyti. En ekkert gerist hvað það varðar og ekkert mun gerast. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafa haft urmul tækifæra til að stíga skrefin í valdatíð sinni en ekki gert það. RÚV er á sínum stað í öruggri tilveru.

Þá er ekkert annað til ráða en að reyna að kaupa upp aðra starfandi fjölmiðla, eða alla vega ná völdum í þeim. Þá er vitanlega verið að tala um Sýn sem á og rekur Stöð 2, Bylgjuna og Vísi.is, auk margra smærri útvarpsstöðva. Sýn er skráð fyrirtæki, hið smæsta í Kauphöllinni og því hægur aðgangur að því að kaupa hlutabréf í félaginu hafi menn áhuga. Gengi hlutabréfa Sýnar hefur lækkað mikið, var í 47 fyrir tæpu ári en er nú um 26 eftir lækkanir undanfarinna daga. Nýlega eignaðist Skel, sem er fjárfestingarfélag sem Jón Ásgeir Jóhannesson stýrir, um 10 prósent hlutafjár í Sýn á mjög hagstæðu verði. Ætla má að Skel kaupi þennan hlut einungis til að selja hann fljótlega með góðum hagnaði. Af fjórum stærstu hluthöfum Sýnar eiga þrír þeirra 36 prósent í félaginu. Ekki þyrfti að koma á óvart að þeir væru tilbúnir að selja hluti sína á góðu yfirverði. Fleiri kynnu að fylgja með og fljótt næðist ráðandi hlutur í félaginu.

Kaup á ráðandi hlut í Sýn snýst um fjárhæðir sem myndu ekki vefjast fyrir réttu sægreifunum, það er að segja öðrum en eigendum Árvakurs. Þessir aðilar eiga fjölda bandamanna í bönkum, vátryggingafélögum, sjóðum og fyrirtækjum sem þeir eiga í viðskiptum við. Sjálfir hafa þeir næg fjárráð til að kaupa og styðja við stórt fjölmiðlafyrirtæki verði það til þess að efla áróður þeirra á tímum þegar ekkert gengur við að halda völdum og sótt er að gjafakvótakerfi þeirra og fleiri forréttindum í sjávarútvegi. Þá munu peningar ekki skipta þá máli.

Það er eftirtektarvert að framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (áður LÍÚ) sé nú skyndilega komin í stjórn Sýnar hf. Ekki er vitað til þess að hún hafi reynslu af fjölmiðlum sem gæti gagnast fyrirtækinu. Hins vegar virðast sægreifar hafa mikið álit á Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur enda greiða þeir henni laun langt umfram það sem þekkist í sambærilegum störfum. Árið 2023 voru skattskyld starfskjör hennar 4,8 milljónir króna á mánuði samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar. Á verðlagi núna eru það um 5,5 milljónir króna á mánuði. Þetta greiða sægreifar, gjafakvótaþegar, Heiðrúnu í laun fyrir að gráta örlög sjávarútvegsins í tíma og ótíma. Víst er að hún vælir og skælir fyrir allan peninginn. Hver valdi hana til setu í stjórn Sýnar? Hvaða fyrirboði er það? Hún gerir varla mikið ein í fimm manna stjórn. Er henni ætlað að stjaka við forstjóra félagsins, Herdísi Fjeldsted, eða er hún einungis að undirbúa innkomu nýrra meirihlutaeigenda sem gætu gert breytingar „til batnaðar“ á ritstjórnarstefnu miðlanna?

Vert er að fylgjast vel með þróun þessa mála á næstunni. Flokkseigendur í Sjálfstæðisflokknum eru ósáttir við að hafa misst af valdastöðum og munu ekki una því vel. Þeir átta sig á því að Morgunblaðið dugar ekki. Gamli Mogginn er ekki lengur það afl sem hann var í tíð fyrri forystumanna blaðsins sem kunnu til verka. En hvað skal þá hópur gera sem hefur ómælda fjársjóði til að nýta í áróðri og kosningum – þegar allt klikkar?

Ekki er gott að tapa forsetakosningum, þingkosningum, stjórnarmyndun og formannskosningum í næststærsta flokki landsins á einum og sama meðgöngutímanum.

- Ólafur Arnarson