Fyrir síðustu borgarkosningar ætlaði Sjálfstæðisflokkurinn að blása til stórsóknar undir forystu Eyþórs Arnalds. Ung og efnileg kona, Hildur Björnsdóttir, var sótt í annað sæti listans og þótti standa sig vel í kosningabaráttunni.
Engin varð stórsóknin. Útkoma flokksins varð sjálfstæðismönnum mikil vonbrigði og staðfesting þess að dýrðartími flokksins í höfuðborginni er liðinn. Óeining hefur verið í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna allt kjörtímabilið og gengi flokksins eftir því. Meirihlutinn eykur fylgi en Sjálfstæðisflokkinn rekur eins og vélarvana hrúgald með sífellt minna fylgi.
Eyþór og Hildur sækjast nú bæði eftir leiðtogasætinu og stefnir í mikil átök innan flokksins. Guðlaugur Þór Þórðarson og hans armur í flokknum styður Eyþór en Hildur nýtur stuðnings flokkseigendafélagsins, sem stóð að baki Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, þegar hún tapaði prófkjörsslag gegn Guðlaugi Þór fyrr á þessu ári.
Hvorki Eyþór né Hildur munu endurvekja forna frægð Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þetta vita sjálfstæðismenn og leita nú logandi ljósi lausnar sem getur, ef ekki leitt flokkinn til sigurs í borginni, þá hið minnsta stöðvað fylgistapið og jafnvel aukið fylgi flokksins eitthvað á nýjan leik.
Í Sjálfstæðisflokknum er reyndur stjórnmálamaður sem gæti breytt stöðunni. Flokkurinn höfðar ekki lengur til frjálslyndra kjósenda. Hann keppir við Miðflokkinn um íhaldssömustu kjósendurna. Síðan eru eldri kjósendur sem aldrei hafa kosið annað en íhaldið og myndu kjósa íhaldið þótt andvana hrútur leiddi listann.
Fáir stjórnmálamenn höfða jafn sterkt til íhaldssamra kjósenda og Sigríður Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra. Hún er enginn veifiskati, óhrædd við að sem höfða til íhaldssamra kjósenda, helstu vonar Sjálfstæðisflokksins um að snúa samfelldu fylgistapi allt kjörtímabilið í sókn – ekki stórsókn en mögulega tangarsókn
Sigríður Andersen gæti orðið sterkur leiðtogi borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna og leitt í anda Davíðs Oddssonar.
- Ólafur Arnarson