Náttfari hefur fengið mikil viðbrög við skrifum sínum í gær sem snérust um að Ólafur Ragnar Grímsson væri byrjaður að plotta vegna mögulegrar utanþingsstjórnar næsta vor. Flestir þeirra sem hafa haft samband meta stöðuna þannig að margt bendi til þess að í byrjun næsta árs komi til slíkra átaka á vinnumarkaði að ekki verði við neitt ráðið. Menn sjá fyrir sér að ríkisstjórnin verði undir gífurlegri pressu og neyðist á endanum til að setja lög á skæruverkföll og skemmdarverk á vinnumarkaði. Það muni bjarga því sem bjargað verður en leiða til þess að ríkisstjórnin liðist í sundur þar sem Vinstri græn kremjist undir farginu sem sósíalistaflokkur sem hefði snúist gegn verkalýðnum með lagasetningu.
Komi til þess að ríkisstjórni falli næsta vor er alls ekki sjálfgefið að boðað verði til kosninga strax. Ef stjórnin fellur vegna upplausnarástands í þjóðfélaginu í kjölfar mikilla átaka á vinnumarkaði þá gæti verið nauðsynlegt að skipa utanþingsstjórn til þess að reyna að koma á friði í samfélaginu og þannig ástandi að kosningar gætu farið fram við eðlilegar og viðunandi aðstæður. Slík stjórn gæti setið í hálft ár og svo færu fram Alþingiskosningar haustið 2019.
Viðmælendur Náttfar telja afar ólíklegt að núverandi forseti Íslands hefði áhuga á að fela Ólafi Ragnari Grímssyni forystu í utanþingsstjórn. Milli þeirra tveggja er ekkert trúnaðarsamband og hermt er að Guðni sé enginn sérstakur aðdáandi Ólafs Ragnars. Hann gæti þó vel fellt sig við að Ólafur gegndi stöðu utanríkisráðherra í slíkri ríkisstjórn. Það þyrfti að ná viðunandi sátt um þann sem yrði forsætisráðherra utanþingsstjórnar. Það yrði að vera reyndur stjórnmálamaður sem nyti virðingar og hefði að baki óumdeildan stjórnmálaferil. Maður friðar og sátta. Að sönnu koma ekki margir þannig menn upp í hugann. En víst er að Friðrik Sophusson er sá fyrrverandi stjórnmálamaður sem helst kæmi til greina ef hann væri fáanlegur til að takast þetta hlutverk á hendur.
Náttfari hefur heyrt mótaða skoðun á því hvernig væri unnt að skipa utanþingsstjórn næsta vor sem ætlað væri að vera við völd í hálft ár. Þá væri miðað við að sækja til verka fyrrverandi ráðherra og þingmenn sem kæmu úr mismunandi flokkum til að freista þess að sem mest sátt gæti tekist um skipan utanþingsstjórnarinnar. Þessi hugmynd gerir ráð fyrir einungis sjö manna ríkisstjórn sem yrði skipuð svona:
Friðrik Sophusson forsætisráðherra og færi einnig með dómsmál, Þorsteinn Pálsson fjármálaráðherra og færi einnig með menntamál, Ólafur Ragnar Grímsson utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra og færi einnig með umhverfisráðuneytið, Katrín Júlíusdóttir iðnaðar-og ferðamálaráðherra, Gunnlaugur M. Sigurmundsson samgönguráðherra og færi einnig með félagsmálaráðuneytið, Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra.
Með þessari skipan væri saman komin í ríkisstjórn mikil pólitísk reynsla – sex fyrrverandi ráðherrar, einn fyrrverandi forseti og sjö fyrrverandi þingmenn sem dreifðust á flesta helstu stjórnmálaflokka landsins.
Hljómar óneitanlega sem spennandi tilraun.
Rtá.