Mun fjármálaeftirlitið leyfa ragnari þór að fjarstýra lífeyrissjóði verslunarmanna?

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur sent frá sér yfirlýsingu og varað stjórn VR við tilburðum til skuggastjórnunar gagnvart Lífeyrissjóði verslunarmanna. Gott er til þess að vita að eftirlitið hafi strax látið í sér heyra því ljóst er að formaður VR svífst einskis til að hafa áhrif á rekstur og stjórnun sjóðsins. Nú hyggst stjórn VR draga þá fjóra stjórnarmenn sem félagið skipar út úr stjórn lífeyrissjóðsins. Stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna er skipuð átta mönnum, fjórum frá atvinnulífinu og fjórum skipuðum af VR.

 

Ragnar Þór Ingólfsson hefur lengi haft í hótunum við lífeyrissjóðinn og gagnrýnnt sitthvað hjá sjóðnum án þess að gagnrýnin hafi haft við rök að styðjast. Vitað er að hann dreymir um að setjast sjálfur í stjórn sjóðsins en það mun ekki gerast. Hann hefur væntanlega gert sér grein fyrir því að FME myndi aldrei samþykkja hann sem stjórnarmann eftir margvíslegar yfirlýsingar frá honum sem eru vandlega varðveittar. Til þess að geta tekið sæti í stjórn lífeyrissjóðs þarf fólk að standast hæfispróf hjá FME. Ragnar Þór kæmist aldrei í gengum slíkt próf og vonandi gerir hann sér það ljóst. Alla vega verður fróðlegt að sjá hverja VR skipar nú í stjórn sjóðsins í stað þeirra sem verið er að setja af. Því er spáð hér að Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR sé ekki einn þeirra.

 

Hlutverk lífeyrissjóða er einfalt. Þeir eiga að varðveita og ávaxta lífeyrissparnað sjóðsfélaga sinna eftir bestu getu. Önnur hlutverk hafa lífeyrissjóðir ekki. Það er því mjög alvarlegt ef aðrir en stjórnarmenn í lífeyrissjóðum reyna að hlutast til um stjórnun og stefnu sjóðanna og hvetja þá til aðgerða sem draga úr ávöxtun. Sama gildir þegar ýtt er á lífeyrissjóðsstjórnir að ráðast í verkefni sem eru utan við lögbundin hlutverk þeirra eins og að taka þátt í óarðbærum byggingarfélögum. Það er ekki í þeirra verkahring og telst ólögmætt.

 

Nú reynir á FME að standa vörð um hagsmuni þeirra 170.000 sjóðsfélaga sem eiga réttindi í Lífeyrissjóði verslunarmanna þegar sú staða er komin upp að formaður VR virðist ætla að leyfa sér að fórna hagsmunum sjóðsfélaganna á altari grímulausrar valdabaráttu. Það verður einnig að gera þá kröfu til stjórnar VR að hún athugi vel sinn gang og sínar skyldur áður en farið verði fram með þeim hætti sem formaðurinn hefur hótað. Hver og einn af 15stjórnarmönnum VR ber ábyrgð sem ekki er unnt að skjóta sér undan.