Mun afleikur binda enda á pólitískan feril Sigmundar Davíðs?

Framboðslistar eru farnir að skýrast hjá flestum flokkum nema Sósíalistaflokki Gunnars Smára Egilssonar. Flokkarnir fara ólíkar leiðir í vali á lista. Sums staðar er prófkjör og annars staðar uppstilling. Í einhverjum tilfellum blasir við að forysta flokkanna ræður listaskipan í öllum kjördæmum þótt það sé stundum sett í búning samráðs við flokksmenn í einstökum kjördæmum.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og allróttæk valdaklíka í kringum hann, hefur farið þá leið að losa sig við fólk sem valdaklíkunni er ekki að skapi. Þannig var þingmanni flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu, Ágústi Ólafi Ágústssyni, bolað af lista. Ágúst Ólafur hefur á yfirstandandi kjörtímabili verið einn öflugasti þingmaður flokksins og athygli vekur að Samfylkingin, sem verið hefur á hraðferð yst yfir til vinstri í harðri keppni við Vinstri græna um atkvæðin á þeim væng, skuli kasta út ötulum þingmanni og taka hans í stað hagfræðing úr banka. Kannski veðjar forysta Samfylkingarinnar á að ysta vinstrið vilji frekar bankahagfræðing en talsmann lítilmagnans svo fremi sem sá fyrrnefndi sé kona og sá síðarnefndi karl?

Sósíalistaflokkur Gunnars Smára er enn óskrifað blað að öðru leyti en því að ýmsar hugmyndir, sem talsmaður flokksins hefur sett fram ,virðast álíka raunhæfar og stofnun fríblaðanna Nyhedsavisen í Danmörku og Boston Now í Bandaríkjunum á sínum tíma, sem ef til vill þarf ekki að koma á óvart vegna þess að talsmaður Sósíalistaflokksins var hugmyndafræðingur þeirra blaða rétt eins og Sósíalistaflokkurinn er hans hugarsmíð. Gjaldþrot þessara blaða nam tugum milljarða króna á núverandi verðlagi í borði Gunnars Smára – en á kostnað annarra.Vera má að Sósíalistaflokkurinn nái inn mönnum á þing þótt vandséð sé að sérstakt tómarúm sé yst til vinstri í íslenskum stjórnmálum.

Miðflokkurinn átti einhverja glæsilegustu innkomu nýs stjórnmálaafls í Íslandssögunni í kosningunum 2017. Nú berst flokkurinn fyrir lífi sínu og raunar gætu níu pólitísk líf formannsins öll verið uppurin. Í kosningunum 2017 hlaut hann glæsilega kosningu í Norðausturkjördæmi og flaug inn sem 3. þingmaður kjördæmisins með 18 prósent atkvæða. Nú er hann dottinn af þingi sem kjördæmakjörinn þingmaður og yrði samkvæmt nýlegri skoðanakönnun 10. þingmaður kjördæmisins sem uppbótamaður. Uppbótaþingsæti eru hins vegar þannig að örfá atkvæði til eða frá í Norðvesturkjördæmi gætu hæglega flutt uppbótaþingsæti eins flokks úr Norðausturkjördæmi til sama flokks í einhverju öðru kjördæmi og því er þingsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar langt í frá öruggt.

Ekki vefst fyrir neinum að Sigmundur Davíð ræður því og stjórnar sem hann vill í Miðflokknum. Því hefur vakið athygli að hann hefur losað sig við tvo áberandi þingmenn flokksins í Reykjavík, þá Ólaf Ísleifsson og Þorstein Sæmundsson, og sett í þeirra stað ungar og óþekktar konur. Greinilega reynir formaðurinn með þessu að draga að flokknum yngri kjósendur og konur, en Miðflokkurinn á nánast ekkert hjá þessum kjósendahópum. Hér misreiknar Sigmundur Davíð sig hrapallega. Miðflokkurinn og stefna hans höfðar nefnilega engan veginn til ungra kjósenda eða kvenna. Ungar óþekktar konur í oddvitasætum munu engu um það breyta. Miðflokkurinn er ekki að keppa við Samfylkinguna eða Pírata um atkvæðin. Hann er að berjast um íhaldssömustu kjósendurna við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Í þeim slag hefðu reynslumiklir og þekktir þingmenn á borð við Ólaf og Þorstein höfðað til þess kjósendamengis sem Miðflokkurinn sækir sitt fylgi til. Líklegt er að Sigmundur Davíð hafi með þessu frumhlaupi sínu stórskaðað sinn eigin flokk en um leið stóraukið líkurnar á að Birgir Ármannsson nái kjöri af lista Sjálfstæðisflokksins.

Í Kraganum fer Sigmundur aðra leið. Hann setur gamlan sjálfstæðismann og núverandi þingmann Miðflokksins, Karl Gauta Hjaltason, í oddvitasætið í stað Gunnars Braga Sveinssonar sem hættir á þingi. Þetta eru vondar fréttir fyrir Sjálfstæðisflokkinn og gæti Óli Björn Kárason í baráttusæti flokksins, 4. sætinu, verið í stórhættu.

Engu máli skiptir svo hverjir skipa sæti á lista Flokks fólksins. Sá flokkur er til utan um formanninn og nái formaðurinn að höfða til kjósenda með einhverju móti nær flokkurinn mögulega á þing. Flokkur fólksins fiskar eftir atkvæðum í sama grugguga vatninu og Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn. Áhugavert verður að sjá útspil, t.d. í innflytjendamálum, frá þessum flokkum eftir því sem kosningar nálgast.

-      - Ólafur Arnarson