\"Mjólk er eitt næringarríkasta einstaka matvæli sem völ er á. Það er því ekki að undra að almennar ráðleggingar um mataræði hafi almennt mjólkurmat sem hluta af heilsusamlegu mataræði.\"
Þetta skrifar dr. Björn S. Gunnarsson, matvæla- og næringarfræðingur hjá MS, en hann er jafnframt vöruþróunarstjóri fyrirtækisins. Hringbraut óskaði viðbragða MS við orðum Lukku Pálsdóttur í Heilsuráðum hennar á sjónvarpsstöðinni á mánudagskvöld en þar vildi hún stöðva \"mjólkurklámið\" með þeim tilmælum að mjólk væri ekki endanlegt svar við kalkskorti; sjálf drykki hún mikið af mjólk og notaði aðrar mjólkurvörur iðulega, en ekki endilega til að bæta kalkbúskap sinn.
Innlegg Lukku hefur vakið athygli, en það breytir ekki því að emætti landlæknis ráðleggur fólki að neyta tveggja skammta af mjólk eða mjólkurmat á dag, eins og Björn bendir á í svari sínu við þætti Lukku: \"Byggja þessar ráðleggingar á bestu fáanlegu vísindalegu þekkingu sem tiltæk er í dag,\" skrifar hann og bætir við: \"Þessar ráðleggingar hérlendis eru í samræmi við ráðleggingar á öðrum Norðurlöndum og Vesturlöndum almennt, sem ráðleggja neyslu 2-3 mjólkurskammta á dag. Í nýjum bandarískum ráðleggingum, Dietary Guidelines 2015-2020, er t.a.m. mælt með neyslu 3 skammta af mjólk og mjólkurvörum á dag.\"
Björn vitnar til fjölmargra vísindarannsókna og heimilda í svari sínu til Hringbrautar - og tekur sérstaklega fram að ef ljóst væri að einhver minnsti vafi væri á hollustu mjólkur, hvað þá ef talið væri að hún gæti haft heilsuspillandi áhrif og væri jafnvel krabbameinsvaldandi, þá væru yfirvöld hérlendis og á Vesturlöndum almennt ekki að ráðleggja og mæla með neyslu hennar.
\"Af og til er hugmyndum varpað fram um að mjólk sé krabbameinsvaldandi,\" skrifar hann áfram: \"Ef rannsóknir á tengslum mjólkur við krabbamein eru skoðaðar þá benda þær flestar til þess að þau séu mjög veik ef nokkur og þá frekar í verndandi átt en hitt. Margar rannsóknir hafa til að mynda hrakið kenningar um tengsl mjólkur við brjóstakrabbamein,\" skrifar fræðimaðurinn og bendir á að fram komi í nýlegri skýrslu frá World Cancer Research Fund og American Institute for Cancer Research) að neysla mjólkurmatar hefði líklega verndandi áhrif á ristilkrabbamein og mögulega einnig verndandi áhrif á krabbamein í þvagblöðru. Á móti hafi kalkríkur matur verið talinn mögulega tengjast blöðruhálskirtilskrabbameini.
Hitt er víst, skrifar Björn að lokum: \"Um jákvæð áhrif kalks og mjólkur á beinþéttni þarf enginn að efast. Fjölmargar rannsóknir staðfesta það, ekki síst ef D-vítamíns er einnig neytt,\" bendir hann á með vísan til glöggra heimilda: \"Ástæða þess að beinþynning er algengari á norðurhjara þar sem mjólkurneysla er venjulega hærri en annars staðar, liggur í þáttum sem ekki er hægt að breyta, þ.e. í genunum. Erfðir, kyn og kynþáttur hafa mikið að segja í þróun beinþynningar, en það er hægt að hafa áhrif á þessa þróun með neyslu kalkríks og D-vítamínríks matar og með því að forðast reykingar og neyslu áfengis,\" skrifar dr. Björn S. Gunnarsson, matvæla- og næringarfræðingur hjá MS.