Allir sem einhvern tíma hafa stigið upp í strætisvagn hljóta að gera sér grein fyrir mikilvægi almenningssamgangna og nauðsyn þess að þær séu sem þægilegastar. Hér áður fyrr mátti sannarlega kvarta og kveina yfir vondum almenningssamgöngum, en í dag eru þær að flestu leyti til sóma.
Tilfinningin sem fylgir því að sitja í strætó er yfirleitt alltaf notaleg og tímann má nota til að hugsa og íhuga. Þannig skila strætóferðir einstaklingnum ekki einungis á áfangastað, heldur eru ýmsar ágætar ákvarðanir teknar í leiðinni.
Í ýmsum kreðsum, þar sem snobbviðhorf svífa yfir vötnum, þykir óhugsandi að láta sjá sig í strætó. Tilhugsunin um að strætóferðin myndi fréttast þykir engan veginn aðlaðandi. Ef snobbarinn neyðist til að fara í strætó er það fyrsta sem hann gerir, ef hann er svo óheppinn að þekkja einhvern farþegann, að afsaka sig í bak og fyrir. Hann kemur því vel til skila að þessi strætóferð hans sé verulega leiðinlegt óhapp, sem vonandi þurfi aldrei að endurtaka.
Fólk sem hugsar á þennan veg vill hreiðra um sig í einkabílnum. Þar þarf að vísu stöðugt að hafa auga með umferðinni og reyna að koma auga á bílastæði. Lítill tími er til að hugsa um neitt annað, ólíkt því sem gerist í strætó þar sem fjarska auðvelt er að koma huganum á flug.
Meirihluti borgarstjórnar stendur vörð um almenningssamgöngur og vill efla þær allrækilega. Mikil áhersla er því á uppbyggingu Borgarlínu. Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, hefur sagt að hann vilji flýta þeirri uppbyggingu. Fyrir þau orð hefur hann fengið skammir. Við því mátti búast. Gagnrýnin virðist aðallega koma úr einni átt, frá miðaldra og eldri karlmönnum sem ekki verður séð að hafi nokkru sinni stigið upp í strætisvagn. Þeir kalla Borgarlínu gagnslausa framkvæmd og segja hana vera peningahít. Þar sem þeir miða allt út frá sjálfum sér og ferðast ekki með strætisvögnum, fullyrða þeir síðan að fólk vilji alls ekki ferðast á þennan hátt. Verið sé að þvinga Borgarlínunni upp á fólk.
Spyrja má: Hvernig í ósköpunum er hægt að vera á móti uppbyggingu almenningssamgangna? Mörgum reynist það reyndar furðu auðvelt. Ekki kemur á óvart þegar Miðflokksmenn upphefja raust sína til að fordæma Borgarlínuna. Það virðist beinlínis vera í genum þeirra margra að setja sig sjálfkrafa upp á móti öllum framfaramálum. Innan Sjálfstæðisflokksins er síðan öflugur hópur sem sér enga ástæðu til að láta meirihluta borgarstjórnar nokkru sinni njóta sannmælis. Þegar kröftug ást á einkabílnum blandast síðan við óbeitina á Degi B. Eggertssyni, þá er engin von til að skynsemin sigri.
Uppbygging Borgarlínu er mikið framfaramál. Nöldurraddirnar munu þó vitanlega ekki þagna. Þar eru á ferð „the usual suspects“. Þetta er hópur einstaklinga sem líður best þegar þeir heyra sjálfa sig hrópa sem hæst. Þeir hafa engan áhuga á almenningssamgöngum, að öðru leyti en því að þeir eru á móti þeim. Sem er vissulega afstaða út af fyrir sig.