Morgunblaðið fær á baukinn: 16 ára stúlka spurð hvort horft sé á hana í sturtu

Óhætt er að segja að margir hafi rekið upp stór augu þegar þeir sáu fyrirsögn viðtals á vef mbl.is í gær þar sem rætt var við hina sextán ára gömlu Úlfhildi Örnu Unnarsdóttur. Úlfhildur hefur verið að gera það gott í lyftingum og setti hún nýtt Íslandsmet í snörun á HM undir 17 ára í Sádi-Arabíu um helgina.

Í viðtalinu var farið um víðan völl og Úlfhildur meðal annars spurð út í mótið um helgina, mataræðið og lífið í Svíþjóð þar sem hún er búsett. Hún var svo spurð að því hvort ekki væri horft á hana í sturtuklefanum og vísaði fyrirsögn viðtalsins í þann hluta þess. Orðrétt segir:

„Hvað segja þá hinar stelp­urn­ar, er ekk­ert verið að glápa í laumi á svona hrika­leg­ar val­kyrj­ur í sturtu­klef­an­um? Úlf­hild­ur tek­ur and­köf af hlátri. „Jú, auðvitað er alltaf glápt á mann, „vá, þú ert svo mössuð!“ segja stelp­urn­ar,“ og lái þeim hver sem vill, en eins og sjá má af mynd­um með þessu viðtali er vöðvamassi Úlf­hild­ar tölu­vert meiri en meðal­konu.“

Þess má geta að eftir birtingu viðtalsins var fyrirsögninni breytt úr „Auðvitað er glápt á mann í sturtu“ og er hún nú „Auðvitað er alltaf glápt á mann“.

Miðað við athugasemdir á Facebook-síðu Morgunblaðsins, við umrætt viðtal, eru margir þeirrar skoðunar að blaðamaður hafi gengið of langt með spurningu sinni.

„Ekki bara fyrirsögnin, er blaðamaður bara ekkert að grínast með spurninguna?? Stelpan er 16 ára!!,“ segir meðal annars í einni athugasemd. Þá segir í annarri: „Vissulega búið að breyta fyrirsögninni aðeins en hún er ekki mikið skárri. Búin til úr svari við fáránlegri spurningu og kemur afrekum þessarar íþróttakonu nákvæmlega ekkert við.“

Þá hefur málið vakið athygli á Twitter og er Edda Falak í hópi þeirra sem hafa tjáð sig um málið. Hún segir að hófstilltari fyrirsögn hefði einnig gengið. „Úlfhildur setti nýtt Íslands­met í snörun” hefði sæmilega gengið sem fyrirsögn,“ segir hún.