Morgunblaðið að fara á taugum vegna kosninganna

Framboð Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er í raun og veru framboð Morgunblaðsarms Sjálfstæðisflokksins. Blaðist virðist vera að fara á taugum og hamast á hverjum degi eins og kosningar séu í lok vikunnar en ekki eftir 9 vikur, þann 26. mai.

 

Sá sem leiðir listann er sagður vera stærsti hluthafi Árvakurs sem gefur blaðið út. Eyþór Arnalds á alla vega sæti í stjórn Árvakurs þó fáir trúi því að hann eigi umræddan eignarhlut í raun. Hann hefur lýst því yfir hátíðlega að hann muni rjúfa öll tengsl sín við atvinnufyrirtæki og fjárfestingar komist hann í borgarstjórn Reykjavíkur. Ljóst er að Eyþór verður kjörinn í borgarstjórn og því er nú beðið eftir efndum á því loforði að rjúfa tengslin við atvinnulífið og viðskiptahagsmuni. Varla verður mikill vandi fyrir Þorstein Má Baldvinsson í Samherja að taka eignarhlut sinn til baka. Það hlýtur að gerast innan skamms.

 

Það breytir hins vegar því ekki að D-listinn er framboð Morgunblaðsins. Staksteinar og fleiri ritstjórnargreinar eru helsti vettvangur árása á önnur framboð sem eru með því svæsnasta sem sést hefur í íslenskum stjórnmálum allt frá tíma kalda stríðsins. Rógurinn í garð Dags B. Eggertssonar borgarstjóra hefur staðið yfir linnulaust í tvö ár en hefur engu skilað ef marka má skoðanakannanir. Aðrir flokkar fá sitt einnig óþvegið nema helst Miðflokkur Vigdísar Hauksdóttur en það virðist vera eini flokkurinn sem er líklegur til að vilja vinna með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar. Þessir tveir flokkar verða að öllum líkindum í stjórnarandstöðu ásamt fleiri flokkum.

 

Skjálftinn á Morgunblaðinu hefur vaxið mikið frá því að Viðskiptablaðið birti skoðanakönnun sína í síðustu viku. Hún olli miklum vonbrigðum og taugatitringi í Hádegismóanum. Í þeirri könnun mældist Samfylkingin með um 30% fylgi og í sókn á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er fastur í 29% sem er lítil viðbót við niðurstöðu síðustu kosninga sem reyndist flokknum mikið reiðarslag. Meirihluti Dags heldur samkvæmt þeirri könnun og reyndar öðrum sem hafa verið gerðar.

 

Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki ætla að ná sér á strik í höfuðborginni enn eitt vorið. Það er engin stemning í kringum lista flokksins þó mikið sé reynt. Eyþór Arnalds selur ekki. Kjósendur hafa miklar efasemdir um feril hans og telja hann í besta falli einkennilegan fugl. Þá er skipan lista flokksins að öðru leyti afar veik. Óþekkt og óreynt fólk sem ekki er að draga fylgi að listanum. Samfylkingin býður fram langsterkasta listann að þessu sinni þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri leiðir en hann er yfirburðamaður í borgarpólitíkinni um þessar mundir.

 

Þegar Viðreisn kynnti fullskipaðan lista sinn í vikunni jókst skjálftavirknin enn í Hádegismóunum. Fúkyrðaflaumurinn sem blaðið birti í Staksteinum af því tilefni segir allt um ástandið í herbúðum blaðsins og Sjálfstæðisflokksins. Áhlaup þeirra á borgina er þegar dæmt til að mistakast þó meira en tveir mánuðir séu til kosninga.

 

Rtá.