Morgunblaðið, málgagn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og sægreifa hefur verið óvenjuþögult um komandi Alþingiskosningar eftir mánuð en fer hamförum í gagnrýni sinni á meirihlutann í Reykjavíkurborg út af stóru sem smáu. Nú er það myglan sem kom upp í Fossvogsskóla sem tryllir blaðið.
Engum dylst að leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag heitir Davíð Oddsson þótt ritstjórnargreinar blaðsins séu ávallt nafnlausar. Af leiðara dagsins má ráða að myglan í skólanum sé til komin vegna þess að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sé svo mikið illmenni að hann vilji helst klekkja á börnum og foreldrum þeirra með öllum tiltækum ráðum. Myglan sé eitt vopna hans og Skúla Helgasonar formanns Skóla- og frístundaráðs borgarinnar í stríði gegn börnum borgarinnar en þó sérstaklega börnunum í Fossvogi. Þessi ritstjórnarskrif ritstjórans tóna raunar all vel við skopskynið sem birtist í teikningum skopmyndateiknara blaðsins, Helga Sig.
Skrif blaðsins og sumra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins geta vart talist annað en heiftarleg og ómálefnaleg og missa marks eins og jafnan þegar taumlaus bræði stýrir skrifum.
Eyþóri Arnalds og báðum klofningsörmum flokksins hefur lítt orðið ágengt í minnihlutanum það sem af er kjörtímabili og nú styttist í borgarstjórnarkosningar næsta vor. Minnihlutanum til armæðu og Morgunblaðinu til angurs er Dagur vinsæll borgarstjóri og staða meirihlutans sterk. Skoðanakannanir benda raunar til þess að fyrr botnfrjósi í helvíti en Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda í ráðhúsi Reykjavíkur. Því hamast Mogginn sem aldrei fyrr – enda er oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn einn eigenda blaðsins.
- Ólafur Arnarson