Móbergs grænkáls pestóið sem tryllir bragðlaukana á stökku frækexi

Nú er tíminn til að njóta saman í eldhúsinu og búa til góðgæti sem gleður bragðlaukana. Margir eiga sinn eiginn matjurtagarð eða hafa nálgast nýja uppskeru beint af býli eða í matvöruverslunum sem leggja sig fram við að koma að íslenskri uppskeru enda er íslenskt hráefni það besta sem við fáum.

Brynja Dadda Sverrisdóttir matgæðingur og fagurkeri nýtur sín best í eldhúsinu með nýja uppskeru á griðastað fjölskyldunnar. Brynja Dadda hefur mikið yndi af matargerð, ýmis konar bakstri og ræktun grænmetis og matjurta. Aðspurð segist hún hins vegar ekki góð í að áframsenda uppskriftir þar sem fæst er skrifað niður og oftast farið eftir tilfinningunni, nema í kökubakstri, þá sé hún nokkuð hlýðin að fara eftir skriflegri uppskrift. „Sérstaklega hef ég unun af því að dvelja í eldhúsinu í sumarhúsinu okkar, Móbergi, sem er í Kjósinni. Þar dveljum við hjónin ansi mikið enda líður okkur best þar,“ segir Brynja Dadda.

Matarást Sjafnar - Brynja Dadda Sverrisdóttir í eldhúsinu.jpg

„Við ræktum mikið að grænmeti og reynum að nýta allt til fulls. Grænkál er auðvelt að rækta og það er fullt af vítamínum, K og C, beta karótíni og kalsium ásamt fleiri jákvæðum innihaldsefnum. Það er hins vegar beiskja í því og því ekki vinsælt að borða ferskt nema lítið í einu. Það er samt gott bakað í ofni með olíu og salti (ekki of mikið samt) og frábært í alls konar pottrétti. Ég geri úr því pestó sem ég nota með osti ofan á brauð og kex, set í fiskrétti, pottrétti með kjúklingi og pasta. Endalausir möguleikar og um að gera að prófa,“ segir Brynja Dadda og nýtur sín til fulls í eldhúsinu þegar uppskeran kemur í hús. Við fengum Brynju Döddu til að gefa okkur uppskriftina af sínu uppáhalds pestói og frækexi sem bragðast svo ljómandi vel með ljúffengu pestó. Þessar hér uppskriftir eru tilvaldar til að búa til skemmtilega samverustund með fjölskyldunni í eldhúsinu um helgina og jafnvel gera stóra skammta og færa sínum nánustu að gjöf til að njóta.

Matarást - fallegar gjafir líka.jpg

Móbergs grænkáls pestó

1-2 krukkur í meðalstærð

  • 5-6 blöð grænkál (taka frekar stór – taka stilkinn frá, við notum hann ekki)
  • 1-2 hvítlauksrif (eða einn heill lítill)
  • 100-150 g kasjúhnetur
  • nokkur blöð af basiliku
  • litinn bita af parmesanosti – eftir smekk
  • salt og pipar - eftir smekk
  • olífuolía

Allt hráefnið sett í matvinnsluvél og maukað saman. Svo er bara að smakka þetta til, ef einhverjir eru hrifnir af miklum hvítlauk má bæta við. Þetta er uppskrift í 1-2 krukkur eftir stærð. Því upplagt að margfalda uppskriftina og dreifa í kringum sig. Heimagert pestó er frábær gjöf og í raun eru heimagerðar kræsingar bestu gjafirnar.

Frækex að hætti Brynju Döddu

  • ½ dl sesamfræ
  • ½ dl hörfræ
  • ¾ dl sólblómafræ
  • ¼ dl graskersfræ
  • (Það má alveg leika sér með blönduna á þessum fræjum, til dæmis má bara nota það sem til er að hverju sinni, heildarmagnið af fræjum er um 2 dl).
  • 2 dl mjöl (má alls konar mjöl, spelt eða annað, um að gera að prófa ).
  • ½ dl olífuolía – tæplega hálfur dl
  • 2,5 dl sjóðandi vatn

Byrjið á því að hita bakarofninn í 150°C. Allt þurr hráefnið hrært saman. Tæplega hálfur dl olífuolía, passið að setja ekki of mikið af olífuolíunni) 2.5 dl af sjóðandi vatni bætt við og allt hrært saman. Best er að hafa þetta frekar þunnt því flest viljum við hafa kexið þunnt og stökkt. Það er auðveldara að dreifa úr þessu á bökunarplötu ef það er þunnt. Gróft salt sett yfir, skerið deigið á plötunni í kex stærðir (það þarf ekki, má alveg brjóta líka). Bakað við 150° hita í 45-50 mínútur.

Gjörði svo vel og njótið.

Matarást Sjafnar Frækexið hennar Brynju Döddu.jpg