Umræða um fjárlagafrumvarpið snýst oftast nær um útgjaldahlið þess. Það sem lesa má á hinni hliðinni um stefnuna í efnahagsmálum er þó jafn mikilvægt. Pólitísku skilaboðin í frumvarpinu nú eru nokkuð óskýr og misvísandi.
Erfiðara fyrir Sjálfstæðisflokkinn en VG að verja yfirvofandi hallarekstur
Þjóðarbúið stendur andspænis verulegum samdrætti. Hann hefur áhrif á fjárlögin. Sú spurning vaknar því fyrst hvort finna megi pólitísk viðbrögð við þeim breytingum í nýja frumvarpinu. Því er fljótsvarað:
Frumvarpið ber ekki með sér nein sérstök viðbrögð við tekjusamdrættinum. Fjármálaráðherra gefur þó í skyn að farið verði í lántökur ef samdrátturinn verður meiri eins og flestir reikna með. Engar ráðstafanir eru heldur til þess að örva hagvöxt að nýju með markvissum innviðafjárfestingum.
Ríkisstjórnin er mynduð um óbreytt ástand fremur en ákveðna stefnu. Eðlilega á hún því erfitt með að bregðast við breyttum aðstæðum. Flokkarnir leggja einfaldlega ekki í nýja samninga sín á milli í þeim tilgangi.
Afleiðingin er líklega sú að það stefnir í hallarekstur og lántökur. Það setur Sjálfstæðisflokkinn í vörn. VG skaðast hins vegar síður á því.
Ríkisfjármálin stuðla ekki að lækkun vaxta
Fjárlagafrumvarp án tekjuafgangs getur ekki skoðast sem framlag til vaxtalækkunar. Þó að launahækkanir hafi verið minni en verkalýðshreyfingin stefndi að eru þær verulega umfram það sem samkeppnisstaða þjóðarbúsins leyfir. Lækkun vaxta má því hvorki reka til ríkisfjármálastefnunnar né launaákvarðana. Hún er ekki ávöxtur góðrar hagstjórnar heldur afleiðing af samdrætti.
Þetta er ekki í samræmi við þá pólitík sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir og er því erfitt fyrir hann að verja, einkum gagnvart atvinnulífinu. VG þarf hins vegar miklu síður að hafa áhyggjur af þessu gagnvart kjósendum sínum.
Skattalækkanir hjálpa Sjálfstæðisflokknum
Á hinn bóginn byggir frumvarpið á ákvörðunum um umtalsverða tekjuskattslækkun. Þetta eru einu sterku pólitísku skilaboðin í frumvarpinu. Þau eru að vísu þynnt út með hækkun annarra gjalda og skatta. Heildaráhrifin eru því ekki ljós.
Sjálfstæðisflokkurinn getur eigi að síður sagt að hann hafi náð fram helsta pólitíska stefnumáli sínu. Það ætti að styrkja formanninn í hans eigin röðum. En vegna samstarfsins við VG getur hann ekki beitt nægjanlegu aðhaldi á móti í samræmi við stefnu flokksins.
Yfirvofandi hallarekstur fer þó tæpast að skaða Sjálfstæðisflokkinn fyrr en síðar þegar neikvæð áhrif hans koma fram nær kosningum. Það getur reynst flokknum snúið í kosningabaráttunni.
Fyrir VG er það nýmæli að setja einkaneyslu framar samneyslu
VG lofaði stórauknum ríkisútgjöldum og boðaði að sama skapi stórfelldar skattahækkanir fyrir kosningar. Frumvarpið er ekki beint í þeim anda. Samneyslan hefur lengi verið yfirlýst forgangsmál VG. Nú fer flokkurinn með forystu í ríkisstjórn sem setur einkaneyslu í forgang í ríkisfjármálum. Varla er hægt að hafa rækilegri endaskipti á pólitískum formerkjum.
Frumvarpið lítur því ekki beint vel út í ljósi þeirrar pólitísku ímyndar sem VG hefur haft. Vörnin er mögulega sú að segja sem er að þetta sé ekki niðurskurðarfrumvarp.
En þegar öllu er á botninn hvolft er í raun lítið eftir af róttækni gamla Alþýðubandalagsins í VG. Flokkurinn hefur verið að þróast yfir í íhaldssaman umhverfisverndarflokk. Það er því ekki víst að VG skaðist svo mikið á ríkisfjármálapólitík af þessu tagi þegar upp verður staðið.