Misskilningur að viðnám vg hafi veikst

Úrsögn Andrésar Inga Jónssonar alþingismanns úr VG beinir athyglinni að því hvers kyns flokkur VG er í raun og veru. Hann telur að viðnámsþróttur VG gagnvart Sjálfstæðisflokknum hafi minnkað. En er það svo í raun og veru?

Mörgum finnst að vísu eins og ráðherrar VG séu ekki samkvæmir sjálfum sér. Tökum dæmi: VG er að setja sjúkraþjálfun á uppboðsmarkað. Á sama tíma hafnar VG með öllu að útgerðir kaupi veiðiheimildir á uppboði.  Prinsippleysi af þessu tagi segir þó lítið um það hvort flokkurinn er að láta undan þrýstingi Sjálfstæðisflokksins.

Þegar horft er til helstu viðfangsefna í íslenskum stjórnmálum virðast vegir VG og Sjálfstæðisflokksins einfaldlega liggja nær hvor öðrum en til að mynda vegir VG og Samfylkingar. Og enn lengra er á milli VG og Viðreisnar.

Stjórnarsamstarf VG og Samfylkingar á sínum tíma einkenndist af stöðugum og fordæmalausum málefnalegum átökum og uppþotum. Á samstarf VG og Sjálfstæðisflokksins hefur aftur á móti ekki hlaupið ein málefnaleg snurða.

Enn er það svo, eins og á árunum frá 2009 til 2013, að útilokað virðist vera fyrir VG og Samfylkingu að ná saman um flest helstu deiluefni líðandi stundar. Þetta má skýra með dæmum:

Grundvallarágreiningur var og er á milli VG og Samfylkingar um það hvort veiðiheimildir eigi að vera ótímabundnar eða standa til ákveðins tíma í senn. VG og Samfylking gátu ekki og geta ekki náð saman um hækkun auðlindagjalda. Og flokkarnir voru og eru á öndverðum meiði að því er varðar uppboðsmarkað fyrir sjúkraþjálfun. Uppboðsmarkaður fyrir veiðiheimildir greindi flokkana að og gerir enn. Samfylkingin talaði og talar enn fyrir auknu Evrópusamstarfi, en VG var og er þversum í því máli. Í landbúnaðarmálum stendur Samfylkingin fyrir meira frelsi, en VG fyrir óbreytt ástand.

Í engu þessara málefna hefur VG þurft að hopa fyrir Sjálfstæðisflokknum í núverandi samstarfi. Grundvallarstefna flokkanna fellur hér saman eins og flís við fjöl.  En í öllum þessum málum beygði forysta VG ráðherra Samfylkingarinnar þegar þau voru saman í ríkisstjórn.   

Í varnarmálum má hins vegar segja að það sé jafn erfitt eða jafn auðvelt fyrir VG að eiga samstarf við Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu. Eins er um Viðreisn. Í dag er svo hverfandi munur á flokkum í loftslagsmálum, að Miðflokknum fráskildum. Heilbrigðismálin eru áfram í nokkru uppnámi. En frekar er þó litið svo á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi látið undan stefnu VG í þeim efnum.

Á síðari árum hafa þyngstu skammaryrði, sem hrökkva af vörum forystumanna Sjálfstæðisflokksins,  verið hugtökin: „samfylkingarmaður,“ „samfylkingarkona,“ og „samfylkingarflokkarnir.“ Hvorki VG né félagsmenn þess flokks hafa fyrr eða síðar fallið inn í mengi þessara pólitísku blótsyrða sjálfstæðismanna. Ástæðan er kyrrstöðupólitíkin.

Hún hefur ekki breyst frá því að VG var í stjórn með Samfylkingu. Það eina sem hefur breyst er að VG er nú í stjórn með flokkum þar sem kyrrstöðupólitíkin veldur ekki ágreiningi.

Andrés Ingi Jónsson er augljóslega staðfastur hugsjónamaður í pólitík. En það er misskilningur að viðnámsþróttur hans gamla flokks hafi veikst í þessu stjórnarsamstarfi. Hitt er sennilega nær lægi að VG hafi aldrei verið á þeim stað í pólitík sem Andrés Ingi hélt að það væri.