Athyglisvert var að sjá viðtal við Guðlaug Þór Þórðarson ráðherra yfir þvera aðra síðu Morgunblaðsins í dag, föstudag, þar sem hann lýsti harmi sínum yfir falli Borisar Johnson sem nú hrökklast frá völdum í Bretlandi. Guðlaugur Þór fjallar um Boris eins og hann hafi ekki fallið af valdastóli heldur beinlínis fallið frá. Viðtalið er eins og samfelld minningargrein um þennan umtalaða og umdeilda mann.
Dálæti Guðlaugs Þórs á Boris Johnson hefur ekki farið fram hjá neinum á undanförnum árum. Í viðtalinu tínir Guðlaugur til ýmsa kosti mannsins: „Hrókur alls fagnaðar, hress og mikill húmoristi ……“
En Guðlaugur Þór minnist ekki á neina af mörgum ástæðum þess að hann er nú hrakinn frá. Félagar Borisar í flokknum tóku höndum saman um að nánast bera hann út úr forsætisráðherrbústaðnum í Downingstræti 10. Ráðherrar breska Íhaldsflokksins og aðrir forystumenn flokksins gera það ekki að gamni sínu að hrekja leiðtoga sinn frá völdum og reka hann frá, niðurlægðan með skömm. Það þarf mikið til að sextíu af forystumönnum flokksins gangi fram fyrir skjöldu með þeim hætti. Boris hefur ítrekað orðið uppvís að ósannindum, hann hefur brotið flestar siðareglur og aðrar umgengnisreglur sem mótaðar hafa verið í breskum stjórnmálum.
Boris Johnson er lýst sem góðum ræðumanni sem getur verið bæði fyndinn og orðheppinn. En hann er einnig ósvífinn, ótraustur, hrokafullur – og beinlínis lyginn. Hann lítur svo stórt á sjálfan sig að hann hefur haldið allt fram til þessa að hann geti komist upp með hvað sem er gagnvart flokki sínum, bresku þjóðinni og umheiminum. Og honum hefur tekist þetta býsna lengi. En allt á sinn tíma og nú segja samstarfsmenn hans í flokknum að nóg sé komið. Ekki meir, ekki meir. Burt með trúðinn. Tökum upp ábyrg og heiðarleg stjórnmál!
Viðtalið við Guðlaug Þór hefði verið mun trúverðugra ef hann hefði einnig getið um ástæður þess að Boris Johnson er hrakinn frá af samflokksmönnum sínum, fullkomlega rúinn trausti.
Stjórnmálaferill Borisar er sérstakur og skrautlegur. Hans verður einkum minnst fyrir að hafa blekkt Breta til að samþykkja Brexit sem er mesta ógæfa sem dunið hefur yfir þjóðina síðan landið nötraði af hörmungum í síðari heimstyrjöldinni. Landsmenn hafa fengið að kenna á þeim stóru mistökum, m.a. með því að hafa átt í vandræðum með að fá keypt eldsneyti í bifreiðar sínar og einnig mikilvægar matvörur. Þá hafa lykilfyrirtæki flúið Bretland og komið sér fyrir á meginlandi Evrópu. Timburmennirnir vegna úrsagnar Breta úr ESB eru farnir að koma fram og þeir eiga bara eftir að aukast.
Vonandi getur nýr og ábyrgur forsætisráðherra Breta hafið ferli til að ná sáttum við ESB og byrjað að vinda ofan af þeim vanda sem Boris Johnson hefur kallað yfir þjóðina.
Þá munu allir sjá hve afleitur leiðtogi Boris Johnson var. Einnig okkar reyndi og öflugi ráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson.
- Ólafur Arnarson