Umsjón / Sjöfn Þórðardóttir
Myndir / Úr safni Minarc
Hjónin Erla Dögg Ingjaldsdóttir og Tryggvi Þorsteinsson hönnuðir búa ásamt dætrum sínum í Santa Monica í Bandaríkjunum. Fáir hönnuðir hafa náð jafn langt í arkitektaheiminum og þau. Erla Dögg og Tryggvi hafa vakið mikla athygli, hlotið lof og sópað til sín verðlaunum fyrir framúrskarandi verk sín og hönnun. Þau eru þekkt fyrir að huga að umhverfinu í hönnun sinni og umhverfisvænan stíl. Okkur lék forvitni á að vita meira um áherslur þeirra í hönnun og efnisvali og hvernig þau huga að nýtingu rýma með hið umhverfisvæna að leiðarljósi.
Hvað er það sem þið hafið fyrst og fremst í huga þegar þið innréttið híbýli með nýtingu í huga? „Við hugsum fyrst og fremst um flæði og notagildi, „Less is more“. Það er svo langt síðan við vorum hellisbúar. Það er mikilvægt að vita hvort það er dagur eða nótt og að upplifa náttúruna sem veitir okkur orku. Við reynum að nota hvert tækifæri þar sem rýmin eru mjög opin, með áherslu á náttúrulega lýsingu og jafnframt að leyfa náttúrunni umhverfis rýmið að njóta sín inni, „inside out – outside in.“
Eruð þið með góðar lausnir fyrir þá sem aðhyllast umhverfisvæna stefnu?
„Staðsetning er mjög mikilvæg þar sem umhverfisþættir eru til dæmis að sumu leyti öðruvísi en á Íslandi. Til að mynda þarf að huga að því hvernig megi lágmarka neikvæð áhrif byggingarinnar út frá hverjum stað fyrir sig. Við notumst að mestu við staðbundið efnisval sem eru álitin endingargóð, endurunnin eða endurnýjanleg efni, að mengun og orkuvinnsla við vinnslu þeirra sé lágmörkuð.
Einnig að efnið sé skaðlaust heilsu manna,“ segja þau hjónin Erla og Tryggvi.
Hvernig hugsið þið efnisval í híbýlin sem hanna á með umhverfisvænan stíl í forgrunni?
„Vistvæn sjónarmið ráða ferðinni þegar kemur að efnivali og við reynum að leyfa byggingarefnunum sjálfum að vera sýnileg í sinni eiginlegu mynd.Stíllinn okkar er minimalískur, hagnýtur, vistvænn og skemmtilegur, eða „fun“ eins og við segjum gjarnan,“ segja þau hjónin Erla og Tryggvi brosandi. „Við reynum ávallt að gera eitthvað sem kemur á óvart , forðumst tískusveiflur og við reynum alltaf að draga náttúruna inn á einn eða annan hátt,“ segja þau hjónin og eru mjög metnaðarfull þegar kemur að því að hugsa um hið umhverfisvæna.
Eins og áður sagði eru Erla og Tryggvi sérhæfð í umhverfisvænum lausnum og orðspor þeirra er orðið þekkt á þessu sviði. Erla og Tryggvi segja að þeim beri skylda til þess að hugsa í umhverfisvænum og sjálfbærum lausnum. „Við höfum til að mynda hannað og hafið framleiðsu á einingahúsum með umhverfisvænni og framsækinni aðferð í byggingaframleiðslu sem kallast mnmMOD. Byggingatæknin er bæði úr endurunnum efnum sem geta verið endurunnin eða – cradle to cradle. „Hún gengur út að nýta hvert efni til fullnustu og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif, þar á meðal af völdum því sem afgangs verður,“ útskýra hjónin. „Við sjáum mikil verðmæti í einstökum efniviði og erum sífellt að leita leiða til að nýta hann, jafnvel á nýstárlegan máta, endurnýta og endurnýta enn frekar. Að okkar mati er nýtni stór hluti af því að vera umhverfisvænn og stuðlar að sjálfbærni.“
„Í Kaliforníu er mikið lagt upp úr sjálfbærni í byggingariðnaði og sjálfbærni í hönnun er okkur mikilvæg. Allt frá því hvar hönnunin er, hvaða efni eru notuð og hvernig hönnunin er útfærð. Mikilvægt er að sjálfbær hönnun sé partur af hönnuninni frá upphafi og staðsetning er mikilvæg. Við erum með verksmiðju í miðbæ LA þar sem við setjum saman veggi, þök og gólf,“ segja þau og eru stolt af því að geta verið miðsvæðis með framleiðslu og hönnun sína. Sjá má á heimasíðu þeirra hvað í boði er: www.mnmMOD.com
Hjónin hafa verið að gera meira og meira af því að hanna atvinnuhúsnæði eins og hótel og stærri verkefni undanfarin ár. „Síðastliðin ár höfum við verið með annan fótinn í því að hanna hótel og veitingastaði og okkur finnst mjög spennandi að taka tuttugu ára reynslu og þekkingu í heimilishönnun og færa út kvíarnar, “ segir Erla og brosir. Má þar nefna hönnun þeirra á ION hótelunum tveimur, ION Luxury Adventure og ION City hér á landi sem hafa vakið mikla athygli á heimsvísu fyrir framúrskarandi hönnun og þjónustu og umhverfi þeirra fær að njóta sín til hins ýtrasta. Sigurlaug Sverrisdóttir athafnakona er einn eiganda þeirra og hjónin hönnuðu hótelin í góðu samráði við Sigurlaugu. Þegar þetta teymi er annars vegar verður útkoman stórfengleg ef svo má að orði komast. Það er mikil upplifun að koma inn á ION hótelin og fangar hönnunin augað hvert sem litið. Sigurlaug er þekkt fyrir metnað sinn og elju þegar kemur að rekstri í heild sinni og hefur náð góðum árangri þegar kemur að hótelrekstri þar sem metnaðurinn og gæðin eru annars vegar.
Í hverju liggur helst ástríðan ykkar þegar þið eruð að hanna?
- Notagildi - Hanna svæði sem fólki líður vel í .
- að koma með lausnir sem koma á óvart.
- að láta náttúrulega birtu njóta sín hvar sem mögulegt er, við erum nefnilega bara alveg eins og blóm, þurfum birtu til að nærast og dafna.
- að blekkja augað dálítið, til dæmis með speglum og ólíkum stærðum.
Hvaðan fáið þið innblásturinn?
„Innblásturinn kemur aðallega frá dætrum okkar og náttúrunni, og þá aðallega íslenskri náttúru og því sem er umhverfis okkur.
Við höldum að það sé mjög nauðsynlegt að fara út að leika eins og þegar við vorum krakkar hvort sem það sé að fara í göngutúr, horfa á sjóinn, leika sér í snjónum og leggja símann frá sér og anda að sér loftinu til að láta hugann reika og koma þankahríðinni af stað. Það er mjög nærandi.“
Er ólíkt að hanna fyrir íslenskar aðstæður miðað við þær aðstæður sem eru í LA?
„Það er allt öðruvísi. Við skoðum ávallt vindafar, sólaráttir, jarðhita og hvernig best er að viðhalda jöfnum hita inn í húsinu. Á Íslandi er nauðsynlegt að það sé logn hjá svölum eða öðru útisvæði til að hægt sé að njóta hönnunnar. Í Kaliforníu er áríðandi að dagssólin sé ekki allan daginn innan dyra og henni sé stýrt hvar og hvenær hún á að skína inn. „Inside out“ notum við hvar sem mögulegt er, og reynum að hafa öll rými mjög opin þannig sé hægt að opna upp á gátt út í garð eða út á svalir og þannig að njóta allrar lóðarinnar.“
Hvað er helst í deiglunni hjá ykkur í dag?
„Eins og er erum að vinna að verkefnum hér í Kaliforníu, á Íslandi og víðar í Evrópu. Það er margt spennandi í deiglunni og mikið af nýjungum,“ segja þau Erla og Tryggvi.
Gróskan er mikil hjá þeim hjónum og hugmyndir þeirra eru óþrjótandi. Ánægjulegt er að segja frá því að Erla var að útskrifast sem byggingameistari og er að stofna nýtt fyrirtæki sem ber heitið ERLA construction, www.ERLAconstruction.com. Með því geta þau boðið upp á að setja saman einingar sem hafa verið hannaðar og pantaðar hjá þeim. Jafnframt eru Erla og Tryggvi með byggingartækni í miðborg LA þar sem þau framleiða einingahús ásamt hurðum, gluggum og öðrum byggingum, www.mnmMOD.com. Einnig bjóða þau upp á plúshús sem eru ný smáhýsi og sjá má sýnishorn á heimasíðunni www.theplushus.com. Á eftirfarandi vefslóð er hægt að fylgjast með því sem þau eru að gera, www.minarcLiving.com, og ávallt líka á síðunni þeirra www.minarc.com .
Hvernig haldið þið að framtíðin verði þegar kemur að hönnun húsnæðis, eigum við eftir að sjá meiri þróun í umhverfisvænum stíl?
„Já algjörlega. Fólk er meira upplýst um áhrif byggingariðnaðarins á umhverfið og náttúruna. Staðbundið efnisval er farið að njóta mikilla vinsælda og fer sífellt vaxandi. Það er ótrúlega notaleg tilfinning að finna meðbyr með breyttum lífsháttum og vitundarvakningu hvernig hægt sé að gera hlutina betur en ekki alltaf að halda áfram í sama,“ segja lífsglöðu og skapandi hjónin að lokum.