„Niðurstaða Efta-dómstólsins sætti ekki gagnrýni í Evrópu og stendur sem mikilvægt fordæmi um svigrúm og sjálfdæmi fullvalda ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins.“
Þessi tilvitnun um lausn átakanna um Icesave er ályktun nefndar um áhrif aðildar Íslands að innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn. Nefndin skoðaði þetta mál sérstaklega og tekur það sem dæmi um það hvernig aðildin að innri markaði Evrópusambandsins hefur styrkt fullveldi Íslands.
Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands notuðu skattpeninga til að greiða þarlendum sparifjáreigendum út innistæður þeirra í útibúum Landsbankans í löndunum tveimur. Í framhaldinu kröfðust ríkisstjórnirnar þess að ríkissjóður Íslands ábyrgðist endurgreiðslu á þessum miklu fjármunum. Um þá kröfu stóð deilan.
Samið var um takmarkaða ábyrgð en þjóðin hafnaði tvívegis lögum þar um. Sú niðurstaða leysti hins vegar ekki deiluna. Hún endaði fyrir Efta-dómstólnum enda snerist ágreiningurinn um réttarreglur sem giltu á innri markaði Evrópusambandsins. Ísland vann málið. Með öðrum orðum: Það voru ekki tvær þjóðaratkvæðagreiðslur sem leystu Icesave heldur alþjóðlegur dómstóll í Lúxemborg.
Það er svo annar handleggur að Bretar og Hollendingar fengu kröfur sínar ásamt vöxtum og kostnaði að fullu endurgreiddar úr þrotabúi Landsbankans og íslenska innistæðutryggingasjóðnum. Það hefði því aldrei reynt á ábyrgð ríkissjóðs þó að málið hefði farið á annan veg.
En nefnd Björns Bjarnasonar kemst að þeirri niðurstöðu að úrlausn Efta-dómstólsins sé mikilvægt fordæmi um svigrúm og sjálfdæmi fullvalda ríkja sem aðild eiga að innri markaði Evrópusambandsins. Það sem nefndin segir er skýrt: Ísland styrkir fullveldið með þátttöku í fjölþjóðasamvinnu af þessu tagi.
Ef starfsemi Landsbankans í Bretlandi og Hollandi hefði byggst á tvíhliða samningum eru verulegar líkur á því að þau hefðu getað neytt aflsmunar í samskiptunum við Ísland. Það er lögmál tvíhliða samninga. Bæði ríkin reyndu að neyta þessa aflsmunar. Þau gáfust ekki upp á því fyrr en úrskurður Efta-dómstólsins féll.
Niðurstaðan skýr: Smáríki standa sterkar að vígi í fjölþjóðasamvinnu þar sem dómstólar skera úr ágreiningi. Fullveldið er betur tryggt með því móti.
Þær staðreyndir sem dregnar eru fram í skýrslunni sýna einnig að aðildin að innri markaði Evrópusambandsins og full aðild að sambandinu eru ekki tveir aðskildir hlutir. Þannig er þó oft talað. Þvert á móti er Ísland aðili að kjarna Evrópusambandsins og innleiðir allar reglur þess þar að lútandi.
Það er með öðrum orðum stigsmunur en ekki eðlismunur á stöðu okkar og þeirra þjóða sem eru fullir aðilar. Fullveldi þeirra ríkja sem eiga fulla aðild er jafn óskorað og hinna sem takmarka aðildina við kjarna starfsemina á innri markaðnum og Schengen. Að þessu leyti auðveldar skýrslan umræðu um það álitaefni hvort rétt sé að stíga skrefið til fulls. Í því fælist mikill ávinningur án grundvallarbreytinga á stefnu Íslands í fjölþjóðasamvinnu.