Tíminn líður hratt og áður en við vitum af verður kominn desember og aðventan ber að garði. Svava Halldórsdóttir, listrænn ráðgjafi er þegar farin að huga að aðventunni og er iðin við að hanna og gera aðventuskreytingar af ýmsu tagi. Sjöfn Þórðar heimsæki Svövu á vinnustofu hennar Skipið og fær innsýn í það sem koma skal fyrir aðventuna. Svava er skapandi og listræn og er óhrædd við að fara ótroðnar slóðir þegar kemur að því að hanna og skreyta fyrir aðventuna. Hún veitir faglega ráðgjöf til verslana og fyrirtækja, sér um hönnun og gerð gluggaútstillingar auk þess sem hún veitir einstaklingsráðgjöf fyrir heimili. „Ég mæli með því að fólk undirbúi aðventuna tímanlega og muni að njóta hennar, betra að byrja fyrr en seinna að undirbúa skreytingar og setja aðventuna upp til að njóta hennar,“ segir Svava og veit hvað hún syngur.
Þátturinn Fasteignir & Heimili verður á dagskrá í kvöld klukkan 20.30.