Ákvörðun forystu Viðreisnar um formannsskipti 16 dögum fyrir kosningar þykir djörf og spennandi. Auðvitað er það áhætta að skipta um formann í stjórnmálaflokki svo skömmu fyrir kosningar. En bent hefur verið á að þarna komi fram einn af kostum nýrra flokka sem eru sveigjanlegri og lausir við gamlar blokkamyndanir.
Algjör einhugur var í forystu Viðreisnar um þessa ákvörðun. Benedikt Jóhannesson þykir hafa komið vel frá viðtölum við fjölmiðla þar sem hann útskýrði það grundvallarviðhorf sitt að enginn einstaklingur væri stærri en flokkurinn. Hann tæki flokkinn fram yfir sjálfan sig og því væri hann tilbúinn að stíga af formannsstóli þar sem hann hefði trú á að nýr formaður gæti aflað flokknum meira fylgis en hann sjálfur á lokametrum kosningabaráttunar. Benedikt leiðir áfram lista Viðreisnar í NAU-kjördæmi og gegnir embætti fjármálaráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er annáluð baráttumanneskja með mikla sjórnmálareynslu og keppnisskap. Hún hefur næstlengsta þingsetu að baki allra núverandi Alþingismanna. Einungis Steingrímur J. Sigfússon hefur meiri þingreynslu. Þorgerður þykir koma einkar vel fram í fjölmiðlum, er kraftmikill ræðumaður og kann að nýta sér reynslu sína í stjórnmálum. Það mun hún væntanlega gera í kosningabaráttunni.
Á engan er hallað þó því sé haldið fram að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sé einn allra glæsilegasti stjórnmálamaður landsins; sannkallaður kvennskörungur.
Því er spáð hér að Viðreisn fá fulltrúa kjörna á þing, ekki færri en fjóra og ekki fleiri en átta.
Rtá.