Doktor Nicole Dubus, bandarískur félagsfræðingur og félagsráðgjafi er sérfræðingur í móttöku flóttamanna. Hún var stödd á Akureyri í vikunni þar sem hún heimsótti stofnanir og deildir bæjarins vegna móttöku sýrlenska flóttafólksins síðar í þessum mánuði. Hringbraut ræddi við doktor Nicole á kaffihúsi í miðbæ Akureyrar og kom m.a. fram að flugeldagleðin á gamlárskvöld gæti valdið flóttafólkinu áfalli.
Hvernig sérðu fyrir þér að líðan sýrlensku flóttamannanna verði þegar þeir koma hingað norður. Hverjar eru líkurnar á góðri aðlögun?
Það veltur mikið á forgrunni þeirra og fyrri reynslu. Sumir kunna að hafa farið í gegnum mjög erfiðan tíma. Sumir kunna að vera í miðju djúpu áfalli. Sumir kunna að hafa verið pyntaðir eða hafa þurft að horfa upp á ástvini sína pyntaða. Sumir hafa flúið, ofbeldi, stríð og dauða. Það er reginmunur á innflytjanda og flóttamanni sem kemur frá stríðshrjáðu landi í þessum efnum.
Kann líka að vera mismunandi hvort flóttafólkið líti á Akureyri/Ísland sem endanlegan áfangastað?
Sumir munu líta á komuna hingað sem tímabundið skjól. Aðrir kunna að hafa gefist upp fyrir aðstæðum í heimalandi sínu og þrá þá ekkert frekar en öryggi og frið, nýtt upphaf, nýja framtíð.
Veltur það líka á félagslegum bakgrunni flóttafólksins, menntun og slíku?
Já. Sumir kunna að hafa menntað sig vel eða sérhæft sig í einhverju og kunna að verða mjög sorgmæddir við komu hingað yfir að hafa misst það allt, gætu átt erfitt með að fá not fyrir sérþekkingu sína í nýju og framandi umhverfi. Aðrir munu koma frá mjög slæmum aðstæðum, aðstæðum fátæktar og lítilla möguleika á lífsbjörgum, þeir kunna að fagna nýjum tækifærum.
En eitt munu allir þessi flóttamenn eiga sameiginlegt. Það verður mikil sorg í hjarta þeirra, þeir hafa allir misst mikið. Ef þeir eru að fara í gegnum mikið áfall mun það taka lengri tíma en ella fyrir þá að aðlagast. Og þá komum við að samfélaginu hér, Akureyri og hvernig það mun líta á nýju íbúana. Það er mjög mikilvægt að bæjarbúar gefi fólkinu þann tíma sem það þarf til að takast á við aðstæðurnar til að aðlaga sig. Sumir kunna að verða fljótlega tilbúnir að hefja nýtt líf, læra íslensku og upplifa þakklæti. Aðrir munu ekki standa í sömu sporum. Það er eðlilegt að sumir verði tortryggnir til að byrja með, það verður að koma í veg fyrir að það verði reynt að snúa þeim eins og skot til íslenskra siða. Sumir kunna að bregðast illa við þrýstingi á umbreytingar, það getur snúið að svo mörgu.
Er traust lykilorðið í farsælli mótttöku flóttamanna?
Já, traust er málið þegar kemur að móttöku flóttamanna. Þar telur allt, nágrannar, viðmót hins kunna eða ókunna bæjarbúa.
Ertu bjartsýn á að þetta gangi vel?
Já, við erum að tala um fjórar fjölskyldur á þessu svæði hér og þar af kemur ein fjölskylda með þremur kynslóðum. Ég trúi því að Ísland geti sinnt þessu verkefni betur en nokkurt annað land, en þetta verður ekki einfalt.
Hvað með tímasetninguna, að suðrænir múslimar flytjist hingað norður í kuldann og myrkrið þegar það er svartast? Um jól? Svo dettur manni í hug að það geti orðið erfitt fyrir fólkið að upplifa öll lætin á gamlársákvöld, flugeldana, hávaðann, sprengignýinn – við erum að tala um stríðshrjáða borgara sem e.t.v. tengja allt aðra hluti en gleði við lætin á gamlárskvöld – ekki satt?
Jú, tímasetningin á komu flóttafólksins hingað norður er mjög óheppileg. Það hefði verið mun betra að koma hingað að sumri þegar dagur er langur. Nú skín sólin í Sýrlandi 10,5 klukkustundir á dag svo það sé nefnt til samanburðar, en það er ekki eins og að við tímasetninguna verði ráðið. En það er alveg rétt að fólkið gæti átt mjög erfitt í látunum á gamlárskvöld. Flóttafólkið kann að tengja flugeldana við ógnir sem það hefur upplifað.
Svo er hann líka fyrir hendi þessi menningarmunur, að koma hingað rétt fyrir kristnu hátíðina jólin, þar sem langflestir hér eru kristnir og menningin gengur út á það, mjög mikla kristna trúaráherslu. Það gætu orðið mjög mikil viðbrigði.
Og kannski erfiðara líka að flytja í 18.000 manna byggð en segjum milljónaborg í Evrópu?
Smæð landsins og samfélagsins getur líka verið kostur. Það jákvæða er að kannski vilja margir aukinn fjölbreytileika í samfélagið hérna og því fylgja tækifæri. Ef þú myndir sjálfur spyrja fólkið myndi það sennilega segja: Við kjósum öryggi umfram allt en það er líka mikilvægt að fólkið upplifi sig sem velkomið.
Hve mikilvægar verða hinar svokölluðu stuðningsfjölskyldur flóttafólkinu?
Mjög mikilvægar en samt er gott að muna að það er ekki beinlínis málið að ota of miklu eða of hratt að flóttafólkinu. Að læra á umhverfið, fá að vita hvar er best að kaupa í matinn og svona er mikilvægt en fólkið gæti orðið hrætt ef það fær á tilfinninguna að það eigi að breyta því, aðlaga það of hratt. Jafnvel vinagjöf, jafnvel jólagjöf frá ókunnugum gæti kallað á misskilnig. Þau verða að upplifa að það verði í lagi fyrir þau að vera þau sem þau eru.
Vegna óttans við hryðjuverk og neikvæðrar umræðu um íslamstrú er þá hætta á að fólk frá þessum heimssvæði, frá þessum menningarheimi, muni mæta meiri tortryggni en flóttafólk á Íslandi hefur að jafnaði mætt til þessa?
Óttinn er alltaf fyrir hendi í heiminum, aðeins í mismunandi mynd. Nú beinist óttinn gegn múslimum. Okkar áskorun er að bregðast ekki við óttanum, láta hann ekki stjórna för.
Nú er engin moska hér á Akureyri – verður það vandi fyrir fólkið að geta ekki stundað trú sína í bænahúsi?
Þetta eru súnnímúslimar og eftir því sem mér skilst eru á Akureyri tvær hreyfingar íslamskrar trúar. Ég held að þótt það sé ekki moska hérna verði það e.t.v. ekki sérstakt vandamál. Mestu skiptir að fólkinu líkt og öðrum borgurum sé veitt frelsi til að stunda þau trúarbrögð sem það kýs. Svo fremi sem sú iðkun hafi ekki neikvæð áhrif á frelsi annarra.
(Viðtal: Björn Þorláksson)