Nýafstaðinn landsfundur Samfylkingarinnar hverfur algerlega í skuggann af formannskosningu í Sjálfstæðisflokknum sem allir fjölmiðlar fjalla nú um.
Þó hefur Kristrún Frostadóttir, nýr formaður flokksins, aðeins komist að í fjölmiðlum til að viðra meginskoðanir sínar. Þar vekur einkum tvennt athygli. Hún leggur til að flokkur hennar ýti til hliðar tveimur helstu áherslumálum sínum hin síðari ár. Kristrún telur ekki mikilvægt að Samfylkingin hafi áhuga á ESB og þeim möguleika að Ísland geti tekið upp evru í stað íslenskrar krónu sem er minnsta myntkerfi í heimi. Hún vill stinga Evrópumálum undir stól að svo stöddu.
Þá telur hún ekki brýnt að vinna að framgangi breytinga á stjórnarskrá landsins sem hefur verið annað grundvallarmál flokksins. Jóhanna Sigurðardóttir lagði höfuðáherslu á breytingar á stjórnarskránni í formanns-og forsætisráðherratíð sinni. Nú virðist sem Kristrún vilji hreinlega þurrka yfir arfleifð Jóhönnu þó að hún hafi leitt flokkinn í kosningunum 2009 til 30 prósenta fylgis sem skilaði honum 20 þingmönnum. Í síðustu kosningum var fylgi Samfylkingarinnar einungs 10 prósent.
Svo virðist sem Kristrún ætli með þessu að greiða leið fyrir flokkinn til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Þessi tvö mál hafa verið sjálfstæðismönnum þyrnir í augum. Þeir virðast geta samið við aðra um nánast allt annað. Nú er hindrunum rutt burt þannig að Samfylking Kristrúnar geti gert sig til fyrir samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Kristrún boðar nýja tíma í stjórnmálum flokksins en svo virðist sem hún líti á það sem forgangsatriði að koma Samfylkingunni inn í ríkisstjórnarsamstarf eins fljótt og auðið er.
Nú, þegar nýr formaður Samfylkingar hefur rutt Evrópumálum og stjórnarskrárumræðu úr vegi, verður lítill vandi fyrir hana að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki þar sem fjallað verður um þessa venjulegu málaflokka; heilbrigðismál, samgöngur, menntamál og ríkisfjármálin. Svo verður eitthvað tekist á um skattastefnu og útþenslu ríkisbáknsins þar sem báðir aðilar ná ýmsu af sínu fram en öðru ekki.
Einhverjir hefðu búist við meiri metnaði hjá nýjum og glæsilegum foringja jafnaðarmanna á Íslandi.
Margt bendir hins vegar til þess að Kristrún og varaformaður hennar verði að ráðast í tiltekt heima fyrir áður en raunhæft verður fyrir flokkinn að komast að ríkisstjórnarborðinu.
Strax og ljóst var að 94,5 prósent fundarmanna á Landsfundi Samfylkingarinnar höfðu veitt Kristrúnu atkvæði sitt nýtti hún nýfengið umboð sitt til að lýsa því sérstaklega yfir að Samfylkingin muni ekki útiloka fyrir fram ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, en í síðustu tvennum þingkosningum hefur Samfylking afdráttarlaust lýst því yfir að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn komi ekki til grein.
Þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Helga Vala Helgadóttir, leyfði nýkjörnum formanni ekki að njóta fyrstu helgarinnar í embætti heldur sá einhverra hluta vegna ástæðu til að lýsa því sérstaklega yfir að af hennar hálfu komi samstarf við Sjálfstæðisflokkinn ekki til greina.
Þessi yfirlýsing þingflokksformannsins og furðuleg og raunar mjög ósvífin gagnvart nýkjörnum formanni flokksins – formanni með nýtt og óskorað umboð frá flokksfólki til að stýra flokknum. Með þessu frumhlaupi sínu stillir Helga Vala þingflokknum upp gegn nýjum formanni og vilja flokksmanna. Eitt af verst varðveittu leyndarmálum íslenskra stjórnmála er að Kristrún Frostadóttir nýtur ekki stuðnings í þingflokki Samfylkingarinnar þótt hún eigi vísan stuðning almenns flokksfólks.
Kannski opinberast þarna vandi Samfylkingarinnar sem hefur birst í ákaflega dapurlegu kjörfylgi í kosningum á undaförnum árum. Gjá hefur skapast milli þingflokks og flokksfólks. Slíkt veit ekki á gott. Þingmenn flokksins hafa ekki sótt sér umboð til flokksfélaga í opnum prófkjörum á liðnum árum heldur hefur verið uppstilling á lista. Ný forysta flokksins hefur óskorað umboð frá flokksfólki – þingflokkurinn ekki.
Skynsamlegt væri hjá þingmönnum Samfylkingarinnar að hlusta vel á nýja forystu flokksins og flokksfólkið sem veitti henni umboð.
Skynsamlegt er hjá Kristrúnu Frostadóttur að binda ekki hendur sínar með fyrir fram yfirlýsingum um að samstarf við tiltekna flokka komi ekki til grein. Hagfræðingurinn og jafnaðarmanneskjan mætti hins vegar íhuga vel hvort skynsamlegt er að blása út af borðinu stefnu flokksins um fulla aðild að ESB og upptöku evru hér á landi. Hagfræðingurinn sér í hendi sér hve gríðarlega jákvæð áhrif slíkt hefði á hagstjórn hér á landi og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Jafnaðarmanneskjan sér svo í hendi sér að bætt samkeppnisstaða atvinnulífs hér á landi er ávísun á betri lífskjör almennings í landinu. Skaðlegasti skatturinn sem við Íslendingar búum við er krónuskatturinn – mörg hundruð milljarðar sem sogast út úr verðmætasköpuninni hér á landi á hverju ári vegna þess eins að við notum íslensku hamfarakrónuna en ekki alvörugjaldmiðil.
Nýr formaður Samfylkingarinnar mætti íhuga hvernig best er að hrinda helstu hagsmunamálum þjóðarinnar í framkvæmd og fagna samstarfi við hvern þann sem er fús til að ganga til samstarfs um mikilvægustu málin. Svo þarf að koma þingflokknum í skilning um þetta.
- Ólafur Arnarson.