Miðjuflokkarnir: Samfylking, Viðreisn, Framsókn og Píratar fengju samtals 33 þingmenn samkvæmt könnun Maskínu og rétt um 50% atkvæða.Jaðarflokkarnir til vinstri, VG og Sósíalistaflokkurinn, væru með 13 þingmenn og 20.4% fylgi og jaðarflokkarnir til hægri, Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur, fengju 17 þingmenn kjörna og hefðu 26.4% fylgi á bak við sig.
Fullkomlega eðlilegt væri því að miðflokkarnir mynduðu fjögurra flokka stjórn í samræmi við niðurstöðu könnunar Maskínu. Niðurstaðan er beinlínis ákall um það.
Spyrja má hvort ekki sé kominn tími til að hvílajaðarflokkana bæði til hægri og vinstri og láta reyna á öfluga miðjustjórn? Yfirstandandi kjörtímabil hefur sýnt svart á hvítu hversu óheppilegt stjórnarmynstur það er þegar flokkar af sitt hvorum jaðri stjórmálanna taka höndum saman um ríkisstjórn, valdanna einna vegna. Saminn var stjórnarsáttmáli með ýmsum fögrum loforðum og markmiðum. Þegar upp er staðið blasir hins vegar við að stjórnarsáttmálinn var bara til skrauts.
Í ríkisstjórninni virðist hafa verið þegjandi samkomulag um að hver flokkur – hver ráðherra – færi sínu fram, ekkert samráð þyrfti að hafa um framgang mála svo fremi að ekki þyrfti atbeina Alþingis. Ef þingmeirihluta þyrfti var ekki á vísan að róa. Afleiðingin er fullkomið stefnu- og rótleysi. Ráðherrar gera eins og þeim sýnist en í stórum málum, sem kalla á skipulega stefnumörkun og sameiginlegt átak, er enginn við stýrið, heldur einfaldlega látið reka á reiðanum.
Óvíða hefur þetta birst eins greinilega og í heilbrigðismálum. Sjálfstæðismenn eru mjög ósáttir við stefnu Svandísar Svavarsdóttur í málaflokknum almennt og einnig í sóttvarnamálum. Skemmst er þess að minnast er dómsmálaráðherra sagðist á dögunum vera ósammála síðustu aðgerðum vegna Covid-19 en að hún hefði engu að síður stutt þær á ríkisstjórnarfundi.
Grunnvandamál þessarar ríkisstjórnar er að Sjálfstæðisflokkurinn og VG eru vart sammála um nokkurt mál. Eina leiðin fyrir þessa flokka til að vinna saman í ríkisstjórn er að stjórnarsamstarfið snúist eingöngu um stólana og alls ekki málefnin. Niðurstaðan er að allt þetta kjörtímabil hefur verið kyrrstaða og lítill gaumur gefinn verkefnum sem skipta máli til framtíðar.
Nauðsynlegt er fyrir framtíðarhag þjóðarinnar að jaðarflokkunum verði vikið frá stjórn þjóðarbúsins og til verksins kallaðir flokkar af miðjunni sem hafa nógu áþekka sýn til að þeir geti sameinast um brýnustu verkefni þjóðarinnar í bráð og lengd. Nóg er komið af einleik ellefu ráðherra og tími runninn upp fyrir starfhæfa ríkisstjórn með burði til stefnumörkunar til framtíðar.
Vert er að muna að Sigurður Ingi Jóhannsson hefur áður gegnt embætti forsætisráðherra, frá vori 2016 og þar til ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við í janúar 2017. Því hlutverki skilaði hann með sóma,enda sáttfús og laginn stjórnmálamaður.
Verði úrslit kosninganna þann 25. september nk. í líkingu við niðurstöðu könnunar Maskínu, er rökrétt að forseti Íslands feli Sigurði Inga umboð til myndunar miðjustjórnar þessara fjögurra flokka.
- Ólafur Arnarson