Þó fylgið hrynji af Miðflokknum og Flokki fólksins samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR, þá er ríkisstjórnin enn í minnihluta og væri fallin ef kosið væri núna og niðurstöðurnar yrðu í samræmi við þessa könnun. Klausturmálið hefur skiljanlega skaðað Miðflokkinn og Flokk fólksins verulega. Ríkisstjórnarflokkarnir græða vitanlega á því til skemmri tíma litið. Þegar frá líður munu áhrifin ganga til baka og því hljóta niðurstöður þessarar könnunar að vera stjórnarflokkunum mikil vonbrigði og ættu að vera þeim umhugsunarefni.
Könnun MMR var gerð dagana 5. til 11. desember, þegar umræðan um barklúður sexmenninganna var í hámarki. Samkvæmt könnuninni skiptist fylgi sem hér segir á flokka:
Sjálfstæðisflokkur fengi 22.1% og 14 þingmenn. Var með 25.2% í kosningunum fyrir ári og 16 þingmenn. Samfylking fengi 16.9% og 12 þingmenn en var með 12.1% og 7 þingmenn í kosningunum. Píratar fengju 14.4% og 10 þingmenn en voru með 9.2% og 6 menn. VG fengi 12.9% og 9 þingmenn í stað 16.9% og 11 manna. Framsókn fengi 12.5% í stað 10.7% í kosningunum og fengi 8 þingmenn. Viðreisn er með 8.5% og 6 þingmenn í stað 6.7% í kosningunum og 4 menn. Miðflokkur missir um helming fylgis frá kosningunum, fer í 5.9% og fengi 4 menn. Flokkur fólksins kæmi ekki að manni og fengi 4.2%.
Samfylking, Píratar og Viðreisn hafa þannig bætt við sig 11 þingmönnum frá því í kosningunum fyrir ári. Rískistjórnarflokkarnir eru með minnihluta atkvæða á bak við sig og næðu ekki meirihluta í þinginu. Stjórnin væri því fallin eins og samkvæmt öllum skoðanakönnunum frá því á miðju þessu ári.
Klúður Miðflokks og Flokks fólksins vegna Klausturmálsins dugar ríkisstjórninni ekki til að halda velli ef marka má niðurstöður þessarar nýjustu skoðanakönnunar.
Rtá.