Línur í stjórnmálum eru ekki alltaf skýrar þannig að annars vegar sé stjórn og hins vegar stjórnarandstaða. Stundum liggja sterkir þræðir milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Á Alþingi eru til dæmis tveir flokkar, sem virðast eiga nær fullkomna samleið þótt annar þeirra sé nú í ríkisstjórn og hinn stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn.
Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn tala einum rómi í sjávarútvegsmálum; styðja gjafakvótann og sérhagsmuni stórútgerðarinnar sem einn maður. Þeir passa upp á að handhafar kvóta greiða bara 6 prósent raunvirðis fyrir kvótann og finnst það raunar allt of mikið.
Í landbúnaðarmálum eru flokkarnir samstiga; standa vörð um verndartolla á innflutt matvæli til að styðja við innlenda framleiðendur. Enginn ágreiningur er milli Sjálfstæðisflokks og Miðflokks um að velta þeim kostnaði beint yfir á íslensk heimili. Ekki virðist það trufla þingmenn og forystu þessara flokka að þessi stuðningur nýtist íslenskum bændum ekki neitt heldur er hann fyrst og fremst búbót fyrir verksmiðjuframleiðslu á kjúklinga- og svínakjöti, sem lítið á skylt við hefðbundinn landbúnað.
Enginn munur er á stefnu flokkanna varðandi krónuna og upptöku evru. Hvorugur lætur sig neitt um það varða að beinn kostnaður íslenskra fyrirtækja og heimila vegna krónunnar er mörg hundruð milljarðar á ári hverju og lífskjör almennings gætu verið hér miklu betri án krónuskattsins. Þá varðar ekkert um það vegna þess að stórútgerðin er fyrir löngu komin út úr krónuhagkerfinu. Það eru bara litlu fyrirtækin og heimilin sem hlekkjuð eru við óstöðuga og dýra krónu og báðir flokkar fórna glaðir þeim ómerkilegu hagsmunum fyrir sérhagsmunina.
Í Evrópumálum kemst ekki hnífurinn á milli flokkanna. Talað er út í eitt um fullveldi sem ekki megi fórna, eins og ríki á borð við Danmörku, Svíþjóð, Finnland, Lúxemborg og Holland hafi á einhvern hátt fórnað fullveldi sínu með aðild að ESB. Ranglega halda báðir flokkar því fram að við missum forræði yfir okkar fiskveiðistjórn við inngöngu í ESB. Þetta er vísvitandi bull. ESB myndi ekki einu sinni hreyfa athugasemdum við gjafakvótakerfinu, sem er Sjálfstæðisflokki og Miðflokki svo kært, hvað þá að það færi að taka veiðiheimildir af okkur til að gefa öðrum ríkjum. Það væri andstætt sjávarútvegsstefnu bandalagsins.
Í innflytjendamálum er samhljómur milli flokkanna. Meginþemað er að við eigum nóg með okkur sjálf og eigum ekki að hleypa innflytjendum inn í landið heldur einbeita okkur að því að búa í haginn fyrir Íslendinga sem eiga undir högg að sækja, svo sem aldraða og öryrkja. Grátbroslegt er að þeir sem svona tala eru einhuga um að gefa stórútgerðinni tugi milljarða á hverju ári í formi gjafakvóta. Þá skipta aldraðir og öryrkjar engu máli. Það verður jú að forgangsraða.
Þá ala báðir flokkar á útlendingahræðslu og telja fjölmenningu ógna því sem er íslenskt og gott. Orðræða ýmissa þingmanna Miðflokksins og sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, t.d. Ásmundar Friðrikssonar, minnir um margt á furðulega orðræðu Donalds Trumps fyrrverandi Bandaríkjaforseta sem ekki hefur dregið dul á óbeit sína á útlendingum.
Mörgum á óvart stóðu Íslendingar saman nánast sem einn maður í baráttunni við kórónaveiruna. Svo til allir, nema Miðflokkurinn og nokkrir sjálfstæðismenn, jú, og Flokkur fólksins ef flokk skyldi kalla.
Erfitt er að finna mál sem Sjálfstæðisflokk og Miðflokk greinir á um. Þeir virðast vera sammála um efnahagsmál, skatta, tekjuskiptingu, verndartolla, gjafakvóta – og raunar í atvinnumálum almennt. Ekki eru utanríkismál eða vestræn samvinna ásteytingarsteinn milli þeirra.
Það er áleitin spurning hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn bjóða fram til þingkosninga hvor í sínu lagi. Enginn efnislegur ágreiningur virðist vera um málefni milli flokkanna.
Svo merkilegt sem það er, í ljósi þess að Miðflokkurinn klofnaði út úr Framsóknarflokknum, þá eru Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn hálfgerðir systurflokkar. Hvers vegna sameinast þeir ekki einfaldlega og nýta hvert atkvæði til að verja þjóðernið, fullveldið og gjafakvótann?
- Ólafur Arnarson