Miðbær Hafnarfjarðar verður í forgrunni í þættinum Matur og heimili í kvöld. Sjöfn Þórðardóttir mun hitta Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstýru þar sem þær munu rölta um miðbæinn, heimsækja kaffihús og fara yfir flóruna sem þar er að finna. Það má með sanni segja að hjarta bæjarins slái í miðbænum þar sem allt iðar af fjölbreyttu mannlífi og menningu. „Verslun blómstrar og kaffihúsa- og veitingahúsaflóran er einstök, hægt er að njóta matarupplifunnar og gæðastunda um allan miðbæ,“ segir Rósa og bætir við að menningarlífið hafi aldrei verið öflugra. Fjölmargir viðburðir séu í viku hverri og Bæjarbíó og Gaflaraleikhúsið gegni mikilvægu menningarhlutverki í hjarta bæjarins.
Einnig mun Sjöfn heimsækja verslunarkjarnann Fjörðinn og hitta þar Guðmund Bjarna Harðarson framkvæmdastjóra. Fjörður er sannkallað hjarta verslunnar, þjónustu og samgangna í Hafnarfirði. Verslun og þjónusta í verslunarmiðstöðinni hefur aukist jafnt og þétt og þar má finna alla helstu þjónustu sem bæjarbúar þurfa eins og heilsugæslu, pósthús, bakarí og fleira.
„Mottó Fjarðar er að veita persónulega og þægilega þjónustu. Fyrirtækin eru lítil og oftar en ekki er það eigandinn sjálfur sem stendur bak við búðarborðið,“ segir Guðmundur og bætir því við að þessi persónulega þjónusta gerir mikið fyrir bæjarbúa. „Vörurnar eru öðruvísi og fást oftast nær á góðu verði samanborið við aðrar verslunarmiðstöðvar.“ Einnig hefur veitingastaðurinn Rif opnað sem nýtur mikill vinsælda og loks Betri stofan sem prýðir efstu hæð hússins.
Framundan spennandi uppbygging í miðbænum
Mikil uppbygging er framundan í Firðinum sem Guðmundur mun fara yfir með Sjöfn og gefa henni innsýn í það sem koma skal. Þjónustustig mun aukast þegar fram líða stundir og einnig mun bætast við matar- og menningarflóruna sem fyrir er og auka lífsgæði bæjarbúa enn frekar.
Guðmundur segir að lengi hafi verið kallað eftir auknu verslunarrými í miðbæ Hafnarfjarðar og sérstaklega hefur verið ákallandi að fá inn matvöruverslun á svæðið. Með fyrirhuguðum framkvæmdum ásamt annarri uppbyggingu á svæðinu vonast hann til að sjá meira líf færast í „hinn miðbæinn á höfuðborgarsvæðinu“.
„Það sem er skemmtilegt við þetta verkefni er að það hefur verið unnið í sátt og samlyndi við íbúa Hafnafjarðarbæjar og verslunareigendur,“ segir Guðmundur.
Meira um hjarta Hafnarfjarðar, miðbæinn sem blómstrar sem aldrei fyrr, í þættinum Matur og heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.
Hér fyrir neðan má sjá brot úr þætti kvöldsins: