Miðausturlönd – mekka fordómaleysis

 

Vinafólk mitt skrapp til Miðausturlanda nýverið í viðskipta- og menningarerindum.

Á hótelherbergi þeirra eystra beið fagurlega skreytt jólatré.

Vinur minn spurði hvort innfæddum þætti það ekki óþægilegt, enda í blóra við þeirra eigin trúhneigð og menningu.

Starfsfólk hótelsins hélt nú ekki. „Þú ættir að sjá skreytingarnar þegar indversku trúarhátíðirnar standa sem hæst hjá okkur.“

Það vakti athygli vinar míns hve fólkið var almennilegt, upplýst, umburðarlynt.

Sú spurning hefur síðan vaknað í brjósti hans hvort Bandaríkin og hluti hins vestræna heims sem kennir sig við uplýsingu og umburðarlyndi sé e.t.v. kominn skemmra í fordómaleysi og íbúar Arabíu, svona að jafnaði. Að það sé bara klifað á meiningu minnihlutahópa og að af þeirri áherslu stafi ógnin.

Þetta var svolítið kjaftshögg, segir vinurinn – eða frekar eins og köld sturta.

„Nú sé ég heiminn með skýrari augum en áður.“

Skilaboðin gætu verið: Hættum að hlusta á Donalda Trump vorrar samtíðar. Hvort sem ríkisfangið er amerískt eða íslenskt.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut.)