Metum fólki út frá hæfni, ekki kyni

Er hæfni okkar metin eftir kyni eða kynhneigð? Það er farið að færast í aukana að kynjakvótar eru að skila af sér vanhæfari fólki í stöður sem það einfaldlega hefur ekki getu né kunnáttu til þess að sinna. Það að meta einstaklinga út frá hæfni en ekki kyni ætti að vera hornsteinn sérhvers samfélags.

Femínismi snerist um það að konur sýndu að þær væru hæfar, hæfar til þess að gegna stöðum sem aðeins karlmenn voru taldir hæfir í. Það gekk ekki út á það að setja kynjakvóta heldur stigu konur upp og sýndu það að þær voru sterkar og gáfaðar, ekki að þær væru bara með píku og því ætti að hleypa þeim að borðinu. Af hverju er samfélag sem er vel menntað að sætta sig við það að kvótar séu settir?

Það er ýmislegt sem getur spilað inn í og vissulega þarf að taka tillit til þess, til dæmis þegar kemur að barneignum. Það ætti aldrei að leifa það sem skilyrði í mati á hæfni einstaklings til þess að sinna tilteknu starfi hvort viðkomandi ætli að eignast börn eða ekki, slíkt ætti að vera bannað með lögum. Allir vel hugsandi einstaklingar ættu að geta samþykkt það.

Jafnrétti - og jafnréttisbaráttan á heldur ekki að snúast um kyn. Þegar kemur að til dæmis dómskerfinu og lögregluyfirvöldum í málum er varða kynferðisofbeldi erum við öll sett í hendurnar á vanhæfum einstaklingum, illabrotinni löggjöf og mjög svo skrítnum dómstólum. Hvergi annar staðar á Norðurlöndunum kemst hátt settur embættismaður upp með það að skella sér í sumarbústað og horfa á eitt stykki klámmynd og heldur svo bara starfinu sínu.

Hvergi annar staðar í heiminum kemst lögreglumaður upp með það að rannsaka sín eigin kynferðisafbrot á börnum! Hvergi annar staðar í heiminum hefur lögfræðingur greiðan aðgang til að safna upplýsingum um börn sem að koma úr brotnu umhverfi og gætu því verið auðveldlega misnotuð með ógeðfeldum aðferðum, sem viðkomandi var greinilega búin að fínpússa.

Kerfið og einstaklingarnir sem að fara með valdið eru vandamálið. Lögregluembættin hringinn í kringum landið eru skipuð flokkspólitískt. Pabbastrákar eru skipaðir í valdastöður hjá lögreglunni og við það verða gæði löggæslu á Íslandi hræðileg, slíkt segir sig sjálft.

Í staðinn fyrir að beina vopnunum að hvort öðru ættum við að beina þeim að kerfinu og heimta breytingar. Það gerum við ekki með því að einangra okkur út frá því hvað er á milli lappana á okkur.

Við erum öll manneskjur, og erum að ströggla í sama handónýta frændhyggju-klíku-kerfinu.