Í vor fór Sjöfn Þórðar í þættinum Matur og Heimili í garðaskoðun þar sem þrír ólíkir garðar voru komnir í vinnslu og framkvæmdir rétt að hefjast eftir hönnun Björns Jóhannssonar landslagsarkitekts hjá Urban Beat og framkvæmdin í umsjón hjá Garðaþjónustunni. Í kvöld fáum við að sjá afrakstur sumarsins og útkomuna á fyrsta garðinum af þremur. Sjöfn hittir þá Björn Jóhannssson og Hörð Lúthersson verkstjóra hjá Garðaþjónustunni og fær að sjá einn af draumagörðunum sem hannaður var í samráði við eigendur og óskir þeirra.
„Hér var verið að endurskipuleggja gamlan garð með nútímalegum þægindum. Nú erum komin með metnaðarfullan og vel skipulagðan garð þar sem öll svæðin eru nýtt, dvalarsvæðin eru orðin þrjú og hefur stækkað heimilið til muna,“segir Björn. Sérkenni þessa garðs er fjölbreytnin, skjólveggir hafa risið upp, kampavínsveggur sem gefur fjölbreytta möguleika til nýtingar, glerhýsi sem bæði yljar og gleður, heitur pottur á vel valdri staðsetningu og vegleg geymsla fyir útiáhöld svo dæmi séu tekin. „Lýsingin fær líka sérstakan sess og með glerhýsinu aukast notkunarmöguleikarnir allan ársins hring.“
Missið ekki af áhugaverðri heimsókn Sjafnar í fyrsta garðinum af þessum þremur í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00. Sjón er sögu ríkari.
Veglegt útihús hefur risið sem nýtist vel bæði sem geymsla fyrir garðáhöld eða hvaðeina sem húsráðendur kjósa að nýta það í.
Garðurinn er vel skipulagður og skiptist í þrjú dvalarsvæði sem bjóða þá ávallt eitthvert þeirra uppá skjól.