Ásdís Ósk Valsdóttir löggiltur fasteignasali hjá Húsaskjól verður hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Fasteignir og Heimili í kvöld:
Methreyfing hefur verið á fasteignamarkaðinum í sumar og aldrei hafa fleiri fjárfest í fyrstu eign eins og á þessu ári. Sjöfn Þórðar fær til sín Ásdísi Ósk Valsdóttur löggiltan fasteignasala hjá fasteignasölunni Húsaskjól og fer yfir stöðuna á fasteignamarkaðinum í dag og hvernig útlitið er fyrir komandi mánuði.
„Ég er búin að vera á fasteignamarkaðinum í 17 ár og fasteignamarkaðurinn í sumar er sá stærsti á mínum ferli,“ segir Ásdís Ósk. Aðspurð segist Ásdís Ósk aldrei hafa lent í öðru eins, hún væri búin að fara gegnum hrun og gegnum margar sveiflur og sveiflan í sumar sé langstærsta sveiflan sem hún hefur upplifað.
Athygli vekur að þriðjungur þeirra sem hafa verið að fjárfesta í fasteign í ár eru að fjárfesta í sinni fyrstu eign. Ásdís Ósk fer yfir hvaða ástæður liggja að baki og segir að fyrsta lagi hafi mjög lágir stýrivextir haft áhrif hversu margir hafa fjárfest í sinni fyrstu eign á þessu ári. Ásdís Ósk segir að fyrstu kaupendur séu meðal annars að horfa á lægri vexti og auk þess að aðrar ytri ástæður hafi áhrif.
„Það sem við sjáum núna er að það er að myndast meira jafnvægi,“ segir Ásdís Ósk og til vitnisburðar um það sé meðal annars að aukið framboð á íbúðum er að koma inn á markaðinn.
Meira um stöðuna á fasteignamarkaðinum í dag og þróunina sem framundan er í þættinum í kvöld.
Þátturinn Fasteignir & Heimili verður á dagskrá í kvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.