Mér er algjörlega misboðið að hlusta á málflutning Steingríms J. Sigfússonar, sem finnst nógu gott fyrir öryrkja að hafa ENN krónu á móti krónu skerðinguna. Þessa sérstöku framfærsluuppbót sem er skert 100% og var sett aftur á í tíð hans og Jóhönnu Sig. Hann gerir engan greinarmun á því hvort hér sé dýpsta efnahagskreppa eða mesta hagsældarskeið Íslands. Mér finnst á hans málflutningi honum vera algjörlega skítsama um það hvernig öryrkjar og fatlað fólk dregur fram lífið af smánarlágri framfærslu.
Mér er algjörlega misboðið að horfa á forseta Alþingis fá frekjukast í ræðustól, og hlusta á hann verja gjörðir sinnar stjórnartíðar, mér er algjörlega misboðið að heyra hann væna Ingu Sæland um að virða ekki kynsystur sína Jóhönnu Sigurðardóttur. Mér er misboðið að hlusta á hann tala um að við sem erum í forystu heildarsamtaka fatlaðs fólks séum ekki að berjast fyrir þá sem í dag þurfa að lifa af 212.000 kr. framfærslu í boði ríkisstjórnarinnar.
Til margra ára hefur ÖBÍ ítrekað og algjörlega beðið ríkjandi ríkisstjórnir að afnema krónu á móti krónu skerðinguna, þ.e. taka út 100% skerðingu á sérstakri framfærsluuppbót. Vegna þess að fatlað fólk þarf með henni að kaupa sig inn á atvinnumarkaðinn. Til margra ára höfum við krafist þess, bæði með ályktunum, kröfum, samtölum og beiðnum til stjórnvalda að örorkulífeyrir verði hækkaður þannig að hann sé að minnsta kosti til jafns við lágmarkslaun.
Sú ríkisstjórn sem nú situr, sýndi svo sannarlega hvað þeim finnst um öryrkja, þegar atvinnuleysisbætur voru hækkaðar fyrir ári síðan langt upp fyrir örorkulífeyri. Í dag er það bláköld staðreynd að í tíð þessarar ríkisstjórnar eru lágmarkslaun kr. 317.000 - Atvinnuleysisbætur kr. 280.000 - Örorkulífeyrir kr. 248.000 - Allar upphæðir fyrir skatt. Þetta getur ekki verið skýrara, hér hefur fátækasta fólkið á Íslandi verið algjörlega og viljandi skilið eftir! Í boði ríkisstjórnar og forsætisráðherra, sem sennilega fékk atkvæði margra öryrkja í síðustu kosningum vegna orða sinna um að ekki ætti að láta fátækt fólk bíða eftir réttlæti. Ja það var þá réttlæti, ég segi nú ekki annað.
Eitt enn: Þetta frumvarp sem nú er til afgreiðslu á þingi átti aldrei að innihalda neitt annað en það að koma þessum 2,9 millörðum kr. í vinnu í þágu örorkulífeyrisþega. Þar á þessi skammarlegi vitnisburður margra ríkisstjórna sérstök framfærsluuppbót sem skerðist 100% á atvinnutekjur að lækka í 65% og taka á upp nokkurskonar samtímakeyrslu á örorkulífeyri.
(Hins vegar er markmiðið að auka sveigjanleika hvað varðar meðferð atvinnutekna lífeyrisþega við útreikning greiðslna þannig að það verði valkostur að tilfallandi eða tímabundnar atvinnutekjur hafi eingöngu áhrif á útreikning bóta í þeim mánuðum sem þeirra er aflað en skerði ekki rétt til bóta í öðrum mánuðum.)
Það sem kom mér í opna skjöldu er það að inn í þetta frumvarp er laumað inn klausu varðandi slysabætur og búsetuskerðingar: Þá er gert ráð fyrir að bætur samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, nr. 45/2015, bætist í upptalningu á þeim tekjum sem teljast til tekna samkvæmt ákvæðinu.
Í þriðja lagi er gert ráð fyrir lögfestingu ákvæðis 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1200/2018, um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, um að fjárhæð sérstakrar uppbótar vegna framfærslu reiknist í samræmi við réttindi til örorkulífeyris hér á landi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar.
Ég veit ekkert hvað þetta þýðir í raun og vil alls ekki hafa þetta í þessu frumvarpi. Mér þykir ekki smart að ætla að keyra í gegn frumvarp sem inniheldur eitthvað fleira en það sem akkúrat var rætt við okkur forsvarsmenn fatlaðs fólks um!