Ríkisútvarpið er opinbert hlutafélag. Það er almenn regla að umsóknir um opinber störf eru birtar. Umsóknir um starf útvarpsstjóra eru þó ekki birtar. Lagareglur um opinber hlutafélög heimila hjáleið framhjá meginreglunni. Í almennum samkeppnisrekstri er meginreglan hins vegar sú að nöfn umsækjenda um stöður eru ekki birtar.
Reglan um birtingu byggir á skýrum rökum um gagnsæi. Að þessu leyti lúta opinberar stjórnsýsluákvarðanir öðru lögmáli en ákvarðanir á einkamarkaði. Krafan um gagnsæi í opinberum rekstri víkur einfaldlega til hliðar öðrum sjónarmiðum sem geta verið gild á samkeppnismarkaði einkarekinna fyrirtækja.
Þess vegna eiga sömu reglur að gilda varðandi ráðningu útvarpsstjóra og seðlabankastjóra; nema stjórnvöld líti á Ríkisútvarpið sem hreint markaðsfyrirbæri.
Lögin um opinber hlutafélög gera það að verkum að stjórnvöld á hverjum tíma geta valið hvort þau líta á Ríkisútvarpið sem opinbera menningarstofu eða fyrirtæki á samkeppnismarkaði. Sú ákvörðun að birta ekki nöfn umsækjenda um starf útvarpsstjóra er yfirlýsing um að ríkjandi stjórnvöld líta á Ríkisútvarpið sem hvert annað fyrirtæki, sem lýtur einkaréttarlegum lögmálum á samkeppnismarkaði.
En hver ber ábyrgð á þeirri stjórnvaldsákvörðun?
Alþingi, sem kýs útvarpsráð, segir: Ekki ég. Menntamálaráðherra segir: Ekki ég. Útvarpsráð segir: Ekki ég. Það segist hins vegar hafa framselt þetta vald til einkarekins ráðgjafafyrirtækis. Ráðgjafafyrirtækið segir svo: Ekki ég.
Eini aðilinn í þessum skrípaleik, sem segir satt um ábyrgð sína, er þetta virta ráðgjafafyrirtæki.
Sú skilgreining á eðli Ríkisútvarpsins sem felst í þessari ákvörðun veikir mjög málefnaleg rök fyrir því að skattgreiðendur kosti starfsemi þess að stærstum hluta. Það er einfaldlega ekki hægt að vera opinbert fyrirtæki einn daginn og markaðsfyrirtæki þann næsta.
Um þessar mundir er ekki einasta tekist á um hlutverk Ríkisútvarpsins heldur einnig um tilvist þess. Ýmsir vilja að það heyri aðeins sögunni til.
Ég hygg, og vona reyndar, að hinir séu miklu fleiri sem vilja sjá í Ríkisútvarpinu lifandi og kröftugan menningarvettvang með öflugri frétta og þjóðmálaumræðu. Þeir sem bera ábyrgð á að skilgreina Ríkisútvarpið sem hreint samkeppnisfyrirtæki með útvarpsstjóraauglýsingunni hafa lagst á sveif með hinum.
Alþingi getur ekki hlaupist undan þessari ábyrgð. Menntamálaráðherra getur heldur ekki hlaupist undan henni. Og útvarpsráð allra síst.
Að réttu lagi á að breyta þessari ákvörðun. Síðan þarf Alþingi að afhlutafélagavæða útvarpið. Ríkisútvarpið á að vera menningarstofa en ekki markaðsfyrirtæki.