Í gær sat ég á kaffihúsi niðri í bæ og tók viðtal við útlending.
Ekki í frásögur færandi nema vegna þess að ég hafði brugðið mér frá rétt áður en fundum okkar viðmælanda bar saman. Viðmælandinn kom svo inn á kaffihúsið, sá símann minn og tölvu á auðu borði, fólk í kring. Hann hafði orð á hvort þetta þætti í lagi hér á landi?
Við ræddum traust skömmu síðar, eina af mestu auðlegðum lífsins. Vitaskuld er aðgát góð; en eigi að síður. Það er gott að búa í landi án ótta um að einhver ætli að fara illa með mann. Gott að búa í landi þar sem fáir eru nauðbeygðir til að fremja auðgunarglæpi vegna hungurs eða félagslegra aðstæðna. Gott að búa í landi þar sem ofbeldi telst frávik þótt margt falið meinið sé því miður að finna innan veggja heimilanna samkvæmt rannsóknum. Traustið birtist strax á morgnana um leið og skóladagur hefst. Eitt barna minna gengur til og frá skóla. Ég hef aldrei óttast afdrifin eða öryggið á þeim ferðalögum.
Mýmörg önnur dæmi mætti nefna.
Fyrir tveimur árum gleymdi ég myndavél í bókabúð. Nokkru síðar var hringt í mig úr búðinni. Getur verið að þú hafir gleymt einhverju hjá okkur?
Einu sinni tók ég viðtal við erlendan ferðamann sem sagði að eina menningarsjokkið sem hann hefði upplifað á Íslandi hefði orðið í Leifsstöð, strax við komu til landsins. Ferðamaðurinn hafði gleymt veskinu sínu á bekk meðan hann beið farangurs. Hann gerði dauðaleit en greip í tómt. Þá var nafnið hans kallað upp. Skilvís Íslendingur hafði rekið augun í veskið og skilað því strax að upplýsingaborði. Heilu buntin af dollurum í veskinu, allt óhreyft. Menningarsjokk!
Það er ágætt að minna sig á hve heppin við erum að njóta alls þessa góða trausts sem umfaðmar okkur á degi hverjum.
Mitt í allri græðgisumræðunni sem stundum gengur út í öfgar er tilvalið að spyrja hvort það sé kannski besta jólagjöfin til okkar allra að leggja áherslu á að viðhalda þessu trausti.
Því traustið er ómetanlegt.
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)