Bertil Forsberg, prófessor í umhverfislæknisfræði, stýrði rannsókninni og segir niðurstöðurnar stórmerkilegar í samtali við blaðamann Dagens Nyheter. Fylgst var með heilsufari 2000 íbúa í Umeå um 15 ára skeið og reyndist þeim sem búa við miklar umferðargötur mun frekar hætta til að veikjast af alzheimer og æðaheilabilun en hinum, sem bjuggu við hreinna loft, fjarri stærstu umferðaræðum. Umeå þykir henta vel til rannsókna á borð við þessa, þar sem mikil og þétt umferð er um stóran hluta miðborgarinnar, en úthverfin afar dreifð og umferð þar lítil.
Enginn hinna 2.000 þátttakenda í könnuninni sýndi nokkur einkenni vitglapa þegar hún hófst. Voru þeir látnir taka staðlað minnispróf í upphafi rannsóknarinnar og síðan á fimm ára fresti. Jafnframt var fylgst með mengun af völdum umferðar við heimili þeirra. Það var gert með mælingum jafnt á loftgæðum sem umferðarþunga í hverfunum sem rannsóknin tók til.
Samanburðurinn á loftgæðunum og frammistöðu fólks í minnisprófunum leiddi í ljós greinilegt mynstur, að sögn Forsbergs. Alls reyndust 300 þeirra sem rannsóknin náði til hafa þróað með sér einhver einkenni annars hvors sjúkdómsins á þessum 15 árum. Eftir að hafa tekið tillit til annarra þátta á borð við aldur, menntun, líkamsþyngd, neysluvenjur og fleira, kom í ljós að líkurnar á að fá alzheimer eða æðaheilabilun voru 40% meiri hjá þeim fjórðungi þátttakenda sem bjó við mestu umferðina og verstu mengunina en þeim fjórðungi sem bjó við minnstu umferðina og besta loftið. Forsberg segir að mögulega megi því rekja allt að 16 af hundraði tilfella til mikillar bílamengunar.
Tengsl loftmengunar og sjúkdóma á borð við asma, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma hafa verið rannsökuð töluvert á undanförnum árum en styttra er síðan farið var að kanna möguleg áhrif hennar á heilastarfsemina. Í umfjöllun Dagens Nyheter um niðurstöður Forsbergs og félaga er greint frá bandarískri rannsókn á eldri borgurum, sem mun hafa sýnt fram á að blóðflæði til heilans minnkar meira hjá þeim sem búa við mikla bílaumferð í sínu næsta nágrenni.
Það er sem fyrr segir frétavefur RÚV sem segir frá þessum rannsóknum í dag.