Samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins heldur núverandi meirihluti í borginni miðað við að Viðreisn komi inn í meirihlutann með þeim í stað Bjartrar framtíðar sem býður ekki fram að þessu sinni.
Vert er að minna á að þessi könnun er fremur ófullkomin og þarf að hafa vara á gagnvart henni. Einungis 407 svör liggja að baki niðurstöðunni sem verður að teljast ákaflega lítið í kjördæmi þar sem íbúar eru um 120 þúsund og kjósendur um 90 þúsund. Í Fréttablaðinu kemur fram að úrtakið hafi talið 1.017 manns, náðst hafi í 801 og 50.8% þeirra hafi svarað sem gerir 407 manns.
Í Fréttablaðinu er þess ekki getið að aðalritstjóri blaðsins, Kristín Þorsteinsdóttir, er tengdamóðir frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins sem skipar 2. sæti listans. Sú staðreynd rýrir allt traust á blaðinu og gerir ritstjórann vanhæfann að fjalla um svo viðkvæm mál sem skoðanakönnun er þegar um einn mánuður er til kosninga. Eðlilegt væri að blaðið benti á þessa staðreynd. Athygli vekur að Sjálfstæðisflokkurinn í borginni er að koma betur út úr könnunum hjá Fréttablaðinu en hjá alvörufyrirtækjum sem annast skoðanakannanir eins og Gallup og Félagsvísindastofnun HÍ. Mjög fróðlegt verður að sjá niðurstöður þeirra fyrirtækja um fylgi framboða í borginni þegar þær birtast á næstu dögum.
Sé hins vegar litið á niðurstöðurnar eins og þær líta út í þessari könnun, þó með öllum fyrirvörum eins og fyrr getur, þá heldur núverandi meirihluti völdum með stuðningi Viðreisnar sem kæmi þá inn í meirihlutasamstarfið í stað Bjartrar framtíðar. Samfylking fengi 7 borgarfulltrúa kjörna en Píratar, VG og Viðreisn tvo menn hver. Samtals eru þetta 13 borgarfulltrúar af 23. Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur yrðu þá í minnihluta, eins og Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafa verið á yfirstandandi kjörtímabili.
Skoðanakönnun Fréttablaðsins segir ekki mikið en gerir það að verkum að beðið verður eftir niðurstöðum næstu kannana Gallup og FHÍ með mikilli eftirvæntingu.
Rtá.