Meirihlutaflokkarnir í borginni fá 51 prósent stuðning og 12 borgarfulltrúa en minnihlutaflokkarnir, sem fengju menn kjörna, næðu samtals 46,7 prósent atkvæða og fengju ellefu menn eins og verið hefur á yfirstandandi kjörtímabil. Þetta kemur fram í Gallup-könnun sem gerð var dagana 14. febrúar til 13. mars fyrir ríkissjónvarpið og náði til 2.400 manna þar sem helmingur svaraði.
Samkvæmt þessu héldi núverandi meirihluti velli og Dagur B. Eggertsson yrði þá áfram borgarstjóri.
Þó að fylgi meirihluta og minnihluta sé nær óbreytt frá síðustu borgarstjórnarkosningum hafa orðið talsverðar hreyfingar milli einstakra flokka. Innan meirihlutans missir Samfylking tvo menn, annan til Pírata og hinn til Vinstri grænna.
Í minnihlutanum kemur Framsókn inn samkvæmt þessari könnun en flokkurinn hefur engan borgarfulltrúa núna. Framsókn tekur einn borgarfulltrúa af Sjálfstæðisflokki, sem tapar manni og 4,4 prósenta fylgi frá síðustu kosningum. Þá fær Framsókn einnig sæti Miðflokksins sem þurrkast út eins og búist var við. Borgarfulltrúar í Reykjavík eru nú 23. Síðasti fulltrúinn til að ná inn er sjöundi maður Sjálfstæðisflokksins. Lítið þarf að breytast til að hann nái ekki kjöri og sætið falli öðrum flokki í skaut.
Framsókn mælist með 9,9 prósenta fylgi sem er mikil aukning frá síðustu kosningum. Vert er að hafa í huga að könnunin er gerð jafnt og þétt yfir heilan mánuð. Lengi vel var talið að Björgvin Páll Gústafsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, myndi leiða listann og mæltist það afar vel fyrir. Hann ákvað svo nýlega að gefa ekki kost á sér. Eftir það er listi flokksins síður sigurstranglegur. Ætla má að fylgi hans dali talsvert frá þessari mælingu í komandi skoðanakönnunum og sjálfum kosningunum.
Þá hefur prófkjör Sjálfstæðisflokksins verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur. Kann það að hafa haft áhrif á niðurstöður þessarar könnunar. Prófkjörinu lýkur um komandi helgi og eftir það mun athyglin ekki beinast meira að Sjálfstæðisflokknum en öðrum framboðum. Fróðlegt verður að sjá hvaða áhrif það mun hafa á fylgismælingar.
Mikil óvissa ríkir um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins um helgina. Flokkurinn er þverklofinn í tvær meginfylkingar eins og kunnugt er. Fróðlegt verður að sjá hvernig fulltrúar veljast úr þessum fylkingum. Margir flokksmenn óttast að fyrir utan Ragnheiði Öldu og Hildi í tveimur efstu sætunum muni einvörðungu raðast karlar í líkleg borgarfulltrúasæti. Þar er um að ræða þá Björn Gíslason, Kjartan Magnússon, Friðjón Friðjónsson og Þorkel Sigurlaugsson. Erfitt yrði fyrir flokkinn að heyja frísklega kosningabaráttu með slíkan framboðslista – jafnvel þótt Marta Guðjónsdóttir veldist í sjöunda sætið, sjálft baráttusætið!
- Ólafur Arnarson