Í flestum skólum þarf 5 af 10 í einkunnir til að komast milli bekkja. Þeir sem hljóta lægri einkunnir falla.
STUNDIN hefur fengið ráðningarstofur í lið með sér til að leggja mat á það hvort ráðherrar núverandi ríkisstjórnar væru líklegir til að fá ráðningu á grundvelli reynslu sinnar, menntunnar og þekkingar. Fyrirtækin sem hjálpuðu til við matið eru Hugtak-mannauðsráðgjöf, Mannval og Capacent.
Niðurstaða fagaðilanna er sú að 6 af 10 ráðherrum fengju innan við 5 í einkunn. Enginn hlyti ágætiseinkunn, sem er 9 en fjórir af tíu ráðherrum væru á bilinu 6 til 8,5. Ólöf Nordal er hæst en hún er ekki kjörinn þingmaður og var kölluð inn í stjórnina sl. haust þegar Hanna Birna hrökklaðist úr ráðherraembætti vegna lekamálsins.
Eygló Harðardóttir fengi 4,5 í einkunn. Ragnheiður Elín Árnadóttir hlyti 4,0. Í umsögn um hana kemur fram að reynsla af stjórnun og stefnumótun sé lítil. Hún hefur ekkert starfað í atvinnulífinu en verið við störf þrjú ár hjá Útflutningsráði, aðstoðarmaður ráðherra í 9 ár og þingmaður síðan 2007. Kristján Þór Júlíusson fengi 3,5 í einkunn og þrír ráðherrar frá Framsókn reka lestina með vægast sagt ömurlegan vitnisburð.
Umsögn fagaðilanna um forsætisráðherrann, sem fengi einungis 2,5 í einkunn, er ekki glæsileg: “Menntun ófullnægjandi og starfsreynsla mjög takmörkuð. Reynsla af stjórnun og stefnumótun stórra skipulagsheilda engin, reynsla af alþjóðamálum engin og leiðtogahæfni virðist lítil.”
Þessi umsögn skýrir margt af því einkennilega í fari og framgöngu forsætisráðherrans.
Sigrún Magnúsdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson reka lestina, kolfallin, með 1,5 í einkunn. Um þau bæði segja sérfræðingarnir að þau skorti bæði menntun og reynslu. Eins hafi þau engan bakgrunn vegna þeirra málaflokka sem þeim hefur verið falið að stýra. Auk þess sé Sigrún komin fram yfir starfslokaaldur.
Úttekt STUNDARINNAR er satt að segja ekki uppörfandi. Varla þarf hún samt að koma á óvart miðað við frammistöðu ríkisstjórnarinnar á þeim 2 árum sem hún hefur verið við völd án þess að koma miklu í verk.