Ég hef lengi undrast meðvirkni landans gagnvart skattsvikurum.
Og þá á ég ekki við píparann sem lækkar taxtaverðið hjá fátæka manninum og fær greitt svart fyrir greiðann. Nei, ég á við viðskiptamenn. Og margir þeirra hafa orðið berir að kennitöluflakki líka.
Einn íslensku bissnessmannanna sem býr yfir ógeðfelldri sögu er Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna Ben forsætisráðherra. Áður hefur Hringbraut fjallað um hann. Í gær rakti Fréttatíminn hvernig Einar reyndi að nota breskt skattaskjól til að koma 100 milljónum undan af skattfé eftir að hafa grætt heila 2 milljarða á hlutabréfabraski! Eftir því sem fram kemur í greininni sem einn okkar reyndasti blaðamaður ritar, Gunnar Smári Egilsson, slepptu yfrvöld því hér þó að höfða refsimál á hendur Einari vegna skattsvikanna. Skattayfirvöld höfðu heimild í lögum til að láta Einar greiða miklu hærri sekt fyrir svikin sem fólust í málamyndagjörningi. En hann slapp með að punga út smáaurum.
Mörg fleiri dæmi um lausatök mætti nefna. Það mætti líka skrifa langt mál um þá staðreynd að án skattfjár liðast samfélög í sundur, velferðarkerfið hrynur, frumskógarlögmálið tekur við af samkennd og mennsku.
Á meðan helstu svikarar landsins eru í bómull (ef undan eru skilin sum hrunamálanna) er verið að senda almenningi tvenn skilaboð.
1) Það er allt í lagi að svindla, gerðu það bara og þú munt annað hvort komast upp með það eða þá að refsingin verður í engu samræmi við mögulegan ávinning.
2) Það er ekki í lagi að svindla - ekki nema að þú sért huti af hinni íslensku fjármálayfirstétt, hinni sömu og hefur fyllt skattaskjól víða um heim af illa fengnu fé, fé sem elítunni tókst að sjúga út úr íslensku samfélagi.
Báðir kostirnir eru nokkuð nöturlegir - ekki satt?
Björn Þorláksson