Þúsundir manna á höfuðborgarsvæðinu hafa sýnt komu Costco til Íslands mikinn áhuga. Það er í samræmi við aðra atburði sem hafa orðið á Íslandi síðustu áratugina og snúa að þróun verslunar og viðskiptahátta í landinu og varða innkaupavenjur almennings.
Opnun Costco-verslunar á einum stað í Garðabæ er síst merkilegri atburður en tilkoma annarra verslana inn á neytendamarkað hér á landi hin síðari ár. Það vakti einnig mikla athygli á sínum tíma þegar Pálmi Jónsson stofnaði Hagkaup og þegar Jóhannes Jónsson og sonur hans opnuðu Bónus. Tilkoma þessara verslana hafa haft miklu meiri áhrif á veslunarhætti á Íslandi en Costco mun nokkurn tíma hafa hér á landi. Að ekki sé talað um þær miklu breytingar sem verslunarmiðstöðvar eins og Kringlan og síðar Smáralind hafa haft í för með sér.
Vonandi er fólk ekki búið að gleyma látunum sem urðu þegar ýmsar verslanir opnuðu á sínum tíma og tugir þúsunda manna mættu fyrstu sólarhringana til að standa í röð og forvitnast. Þá er verið að tala um IKEA, Rúmfatalagerinn, ELCO, Lindex, Kost og Bauhaus. Reynslan hefur sýnt að nokkrum vikum eftir opnun þessara verslana hefur allt leitað jafnvægis og lífið hefur haldið áfram að ganga sinn vana gang.
Sama mun verða uppi á teningnum varðandi Costco. Fljótlega verða neytendur búnir að átta sig á þessari verslun og svala forvitni sinni. Þá kemst markaðurinn aftur í jafnvægi. Það mun ekki taka langan tíma, í mesta lagi 2 til 3 vikur.
Það er aftur á móti verðugt rannsóknarefni hvernig margir íslenskir fjölmiðlar hafa látið Costco nota sig og jafnvel misnota í aðdraganda opnunar verslunar þeirra. RÚV, miðlar 365 og Morgunblaðið hafa hamast eins og um þvílíkan stórviðburð væri að ræða að ekkert yrði eins í tilverunni eftir opnun þessarar einu verslunar á Íslandi. Það er mikill misskilningur eins og fljótlega mun koma í ljós. Menn verða að átta sig á því að hér er einungis um eina verslun að ræða þó stór sé að fermetratali. Bent hefur verið á að afkastageta sambærilegra verslana Costco í útlöndum er sú að bestu verslanir þeirra geta selt fyrir um 10 milljarða króna á ári.
Jón Björnsson, forstjóri Krónunnar og fleiri verslana, benti á það í blaðaviðtali um daginn að heildarumsvif smásöluverslana á Íslandi væru nú um 400 milljarðar króna á ári. Samkvæmt því gæti Costco náð 2,5% af heildarmarkaðinum ef þeim tekst að ná sama árangri með verslnu sína i Garðabæ og best hefur tekist erlendis. Það er nú allt of sumt og verðskuldar vissulega ekki þá miklu athygli sem fjölmiðlar hafa beint að þessari opnun, eins og um stórviðburð væri að ræða sem ætti eftir að nánast kollvarpa allri verslun í landinu. Markaðshlutdeild sem nemur 2,5% mun ekki kollvarpa neinu. Það ættu þessir stóru fjömiðlar að vita. Í ljósi þess er meðvirkni þeirra gagnvart Costco illskiljanleg og jaðrar við hneyksli. Spunameistarar Costco hafa leikið sér að íslenskum fjölmiðlum.
Ekki þarf að koma á óvart þó Runólfur Ólafsson hjá FÍB hafi farið mikinn út af þeim eldsneytisdælum sem Costco mun reka fyrir framan verslun sína. Costco tíðkar það erlendis að selja eldsneyti við búðir sínar á niðurgreiddu verði til þess að reyna að laða fólk að svæðinu. Þetta eru alþekkt trix í markaðsfræum þeirra. Runólfur hefur verið með miklar og órökstuddar upphrópanir í fjölmiðlum út af því verði sem Costco hefur kynnt og talið það benda til óeðlilegrar verðlagningar hjá Skeljungi, N-1, Olís og Atlantsolíu sem eiga í harðri samkeppni hringinn í kringum landið.
Runólfur tekur ekki með í samanburði sínum að um eitt óhagganlegt verð er að ræða á þessari einu bensínstöð Costco á meðan hinir bjóða upp á afslætti, vildarpunkta, margháttaða þjónustu og stöðvar um allt land.
Runólfur Ólafsson er þekktur fyrir að bera saman epli og appelsínur og fá út banana þegar hann ræðir um málefni íslenskra olíufélaga.
Nú eru starfandi um 300 bensínafgreiðslur hringinn í kringum landið á vegum fjögurra olíufélaga. Ein stöð til viðbótar í Garðabæ mun engu breyta um eldsneytismarkaðinn á Íslandi.
rtá.